Norðurland, sameinað lið UFA, UMSE, UMSS og HSÞ, varð í fjórða sæti með 115 stig í Bikarkeppni FRÍ í frjálsum íþróttum sem haldin var á Sauðárkróki sl. helgi í 45. skiptið. Norðurland keppti í efstu deild en þar var það ÍR sem sigraði með 173 stig.
Af einstaklings árangri keppenda Norðurlands má nefna að Evrópumeistarmótsfarinn Þorsteinn Ingvarsson sigraði í 100 og 200 m hlaupi og langstökki. Þá varð hann annar í þrístökki og 110 m grindarhlaupi. Bjartmar Örnuson sigraði í 800 m hlaupi, Hafdís Sigurðardóttir bar sigur úr býtum í langstökki og varð í öðru sæti í 100 og 200 m hlaupi. Einnig setti Stefanía Andersen Aradóttir nýtt Íslandsmet í sleggjukasti í flokki meyja er hún kastaði sleggjunni (4kg) 39,16 m.