Nokkru fleiri íbúðir í smíðum í árslok miðað við árið á undan

Hafin var smíði 329 íbúða á Akureyri á liðnu ári, 2007, eða nokkru fleiri en árið á undan þegar hafin var smíði 293 íbúða.  Fullgerðar íbúðir á liðnu ári voru alls 251, 160 urðu fokheldar og alls voru 636 íbúðir í smíðum í árslok 2007. Árið 2006 voru alls í smíðum 558 íbúðir. Íbúðirnar 329 skiptast þannig að 19 voru í einbýlishúsum, nokkru færri en árið á undan þegar þau voru 35. Þá var hafin smíði 5 raðhúsa með 19 íbúðum á liðnu ári en alls var hafin smíði á 53 íbúðum í raðhúsum árið 2006.  Flestar voru íbúðirnar í fjölbýlishúsum 291 alls, nokkru fleiri en var árið á undan þegar hafin var smíði 205 íbúða í fjölbýlishúsum. Á liðnu ári voru skráðar fullgerðar íbúðir 251 talsins og í árslok voru fokheldar og lengra komnar í byggingu 42 einbýlishús, 41 íbúð í raðhúsum og 119 íbúðir í fjölbýlishúsum.  Skemmra á veg komnar í lok liðins árs voru 26 einbýlishús, 36 íbúðir í raðhúsum og 372 íbúðir í fjölbýlishúsum. Alls var hafist handa við byggingu tæplega 38 þúsund fermetra af íbúðarhúsnæði og ýmsu því tengt en til samanburðar var magnið árið 2006 alls rúmlega 44 þúsund fermetrar.

Leifur Þorsteinsson verkefnastjóri byggingamála hjá Akureyrarbæ segir að þess hafi orðið vart að eitthvað sé að hægja á framkvæmdagleðinni og miðar þá m.a. við umsóknir um lengingu framkvæmdafresta. Slíkum umsóknum hefur eitthvað fjölgað að undanförnu.  Leifur segir hins vegar að ekki sé mikið um að fólk sé að segja sig frá lóðum. Alls var byrjað á  byggingu atvinnuhúsnæðis samtals að magni rúmlega 195 þúsund rúmmetrar á síðastliðinu ári, en til samanburðar var byrjað á 166 þúsund rúmmetrum atvinnuhúsnæðis árið á undan. Meðal þeirra bygginga sem byrjað var að smíða á liðnu ári var verslunarhúsnæði á nokkrum stöðum við Baldursnes, Furuvelli og á Glerártorgi, flugskýli, dekkjaverkstæði, iðnaðarhúsnæði, reiðhöll, orlofshús og fleira.  En á meðal þess sem tekið var í notkun má nefna bensínstöð, flugsafn, viðbyggingu við sjúkrahúsið, iðnaðarhúsnæði, viðbyggingu við VMA, hesthús og fleira.  Annað sem var í byggingu á árinu var til að mynda íþróttahús í Hrísey, viðbygging við lögreglustöð, menningarhús, iðnaðarhúsnæði og fleira.

Nýjast