Mun fleiri fjölskyldur á svæðinu fengu aðstoð nú en áður

Mun fleiri leituðu eftir aðstoð fyrir jólin en venja er til, að því er forsvarsmenn Mæðrastyrksnefndar Akureyrar og Hjálparstarfs kirkjunnar segja. Yfir 450 fjölskyldur á svæðinu fengu aðstoð hjá Mæðrastyrksnefnd og um 160 fjölskyldur hjá kirkjunni. Gera má ráð fyrir að komandi mánuðir verði mörgum erfiðir og búa menn sig undir að æ fleiri leiti ásjár hjá þeim sem rétta hjálparhönd.  

Jóna Berta Jónsdóttir hjá Mæðrastyrksnefnd segir að fyrir jólin 2006 hafi um 300 fjölskyldur notið aðstoðar hjá nefndinni, þær voru tæplega 300 í fyrra en nú í ár fengu yfir 450 heimili aðstoð þar.  "Við tókum eftir því að til okkar leitaði mikið af nýju fólki sem við höfum aldrei séð áður," segir Jóna Berta.  Hún segir ástandið í þjóðfélaginu helstu skýringu á því, margir hafi misst atvinnu sína en þurfi engu að síður að standa skil á skuldbindingum vegna húsnæðis.  "Þetta er erfiður tími fyrir marga og við finnum það að mörgum þykir það þung spor að ganga að leita til okkar, en við reynum hvað við getum að sýna alúð og nærgætni," segir Jóna Berta. Hún segir fjölmarga að venju leggja Mæðrastyrksnefnd lið og kveðst afar þakklát fyrir stuðninginn, "það vilja allir hjálpa, allir leggja sitt af mörkum, við finnum fyrir mikilli samstöðu og það er ánægjulegt." Jóna Berta gerir ráð fyrir að síst minni þörf verði fyrir aðstoð á næstu mánuðum, uppsagnir margra taki gildi um næstu mánaðamót, janúar febrúar og þá megi búast við að þröngt verði í búi víða. 

Jón Oddgeir Guðmundsson hjá Hjálparstarfi kirkjunnar á Akureyri segir að fleiri hafi fengið aðstoð nú en í fyrra.  Um 160 fjölskyldur fengu aðstoð í ár, þær voru um 100 talsins í fyrra.  "Við bjóðum upp á matarpakka og gjafakort," segir Jón Oddgeir.  Hver fjölskylda getur fengið aðstoð hjá Hjálparstarfinu þrisvar á ári auk jólaaðstoðar og segir Jón Oddgeir að við síðustu úthlutun um mánaðarmótin október nóvember hafi orðið 100% aukning.  "Það segir okkur að vandinn er mikill," segir hann.  Jón Oddgeir segir dapurlegt hljóð í mörgum og greinilegt að mönnum þyki erfitt að leita aðstoðar, "það var greinilegt að margir komu á síðustu stundu, þegar öll önnur sund voru lokuð, menn ætluðu í lengstu lög að forðast að leita eftir aðstoðinni en hafa svo verið tilneyddir," segir hann. Jón Oddgeir segir líkt og Jóna Berta að fjölmargir leggi Hjálparstarfinu lið, gefi fé eða matvæli og fyrir það sé hann þakklátur.

Nýjast