Mótmæla hugmyndum um sölu ríkisins á aflaheimildum

Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, Landssamband íslenskra útvegsmanna, Sjómannasamband Íslands og VM - Félag vélstjóra og málmtæknimanna mótmæla harðlega öllum hugmyndum um sölu ríkisins á aflaheimildum. Stjórn fiskveiða byggir á því að þeir sem nýta fiskistofnana hafi hag af því að ganga vel um fiskimiðin.   

Þannig er það hagur þeirra að draga úr veiðum til að vernda og byggja upp fiskistofna þegar nauðsyn ber til. Ef ríkið ætlar að hirða aflaheimildir þegar árangur næst grefur það undan langtímasjónarmiðum um góða umgengni og skynsamlega nýtingu fiskistofna. Samkvæmt lögum er óheimilt að draga kostnað við kvótakaup frá aflahlut sjómanna en reynslan sýnir að í allt of mögrum tilvikum þar sem kvótaleiga á sér stað hefur ekki verið gert rétt upp við sjómenn. Það er óásættanlegt að ríkisvaldið ætli að stuðla að því að sjómenn verði hlunnfarnir. Nauðsynlegt er að sjávarútvegurinn búi við traust rekstrarskilyrði. Þannig  getur hann áfram gegnt mikilvægu hlutverki í þjóðarbúskapnum og skapað þeim sem hann stunda starfsöryggi.  Það verður ekki gert með sölu  ríkisins á aflaheimildum, segir í yfirlýsingu.

Nýjast