Með þessu vill MS hvetja landsmenn til að nota íslensk orð í stað erlendra og vekja jafnframt áhuga á nýyrðasmíðum á heimasíðu sinni, http://www.ms.is/. Á heimasíðunni er að finna fjöldann allan af nýyrðum og geta notendur kosið uppáhaldsnýyrðin og komið með ábendingar um önnur nýyrði. Dregið verður úr innsendum hugmyndum á degi íslenskrar tungu þann 16. nóvember næstkomandi og eru glæsileg verðlaun í boði.
Að sögn Baldurs Jónssonar verkefnastjóra hjá MS er vonast til að hið nýja málræktarátak veki mikla athygli og auki áhuga landsmanna á smíði nýrra íslenskra orða í stað þess að nota erlend orð. Skemmtilegar myndskreytingar eftir Halldór Baldursson gera það ennfremur að verkum að átakið nær til flestra aldurshópa. Málræktarátakið er unnið í samstarfi við Íslenska málnefnd og auglýsingastofuna Ennemm. Mjólkurfernur koma við sögu á hverju heimili á hverjum degi og koma út í um 65 milljónum eintaka á því tveggja ára tímabili sem átakið nær yfir.