Brynjar Einarsson framkvæmdastjóri segir að teikningar af fyrirhugðum breytingum verði lagðar inn til byggingaryfirvalda nú um mánaðamótin og hann vonast til að hægt verði að hefja framkvæmdir af fullum krafti í næsta mánuði, jafnt innan- sem utanhúss. "Það eru tveir skilaáfangar í verkinu, þann 1. júní á næsta ári munum við afhenda 63 herbergi og ári seinna afhendum við önnur 38 herbergi, sem verða í viðbyggingu sem byggð verður til suðurs. Húsið er 2.224 fermetrar en fullbyggt með viðbyggingunni verður það um 3.600 fermetar. Þessi viðbót er því um 1.350 fermetrar. Einnig verður byggð ein hæð til viðbótar ofan á hærri bygginguna, en það er samþykkt fyrir því samkvæmt gildandi deiliskipulagi," segir Brynjar.
Á fyrstu hæð hússins verður móttaka, skrifstofur og fleira en á neðstu hæðinni verður m.a. veitingasalur, eldhús og starfsmannrými. Herbergi verða svo á öllum hæðum í hábyggingunni og svo í nýbyggingunni, að sögn Brynjars. Hann segir að Þórsbygg sé aðalverktakinn við þessar framkvæmdir en að ýmsir þættir verði boðnir út.
Allt að 50-60 manns við vinnu
"Það er okkar ósk að hægt verði að vinna að þessum framkvæmdum með norðlenskum verktökum. Það er búið að semja við AVH á Akureyri um hönnun og í gegnum þá stofu koma svo fleiri aðilar að því verki. Í þessum breytingum á húsnæðinu er það aðeins skelin sem eftir stendur og svo stigahúsið. Framkvæmdatíminn fram á næsta vor er ekkert allt of langur en hér munu menn sameinast um það að láta hlutina ganga, enda mikið til af frambærilegum starfsmönnum á öllum sviðum hér á svæðinu. Það má gera ráð fyrir að hér verði allt 50-60 manns við vinnu þegar mest verður um að vera á næstu mánuðum," sagði Brynjar.
Hann segir að einnig þurfi að laga til í kringum húsið, með tilheyrandi bílastæðum og byggja fallegan hótelgarð til suðurs. Akureyrarbær og ríkið áttu Þingvallastræti 23 og þar hefur Háskólinn á Akureyri verið með hluta af sinni starfsemi undanfarin ár. Pálmar Harðarson í Hafnarfirði eignaðist húsnæðið fyrir skömmu en hann átti hæsta kauptilboð í eignina, 160 milljónir króna. Pálmar er jafnframt eigandi fyrirtækisins Þórsbygg.
Magnea Þórey Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandairhótela, sagði eftir að skrifað hafði verið undir leigusamninginn á dögunum, að fyrirtækið hefði lengi haft augastað á Akureyri sem vænlegri staðsetningu fyrir nýtt hótel í keðju þess en jafnframt viljað vanda valið á byggingu og samstarfsaðilum.