Mikil uppskera í matjurtagörðum Akureyringa í sumar

„Það gekk allt ljómandi vel, uppskeran var mjög mikil og menn fóru héðan hlaðnir grænmeti," segir Jóhann Thorarensen umsjónarmaður með matjurtagörðum Akureyringa.  Bæjarbúum var í annað sinn nú í sumar boðið upp á að rækta grænmeti í matjurtagörðum við Gömlu gróðrarstöðina og fjölgaði ræktendum töluvert milli ára.   

Þeir voru um 210 talsins í fyrrasumar og um 270 nú á liðnu sumri. Jóhann segir að ekkert lát sé á áhuga fólks á að rækta eigið grænmeti og hann sér ekki fram á annað en að taka þurfi aukið landrými í notkun fyrir sumarið 2011. Þegar eru um 200 af þeim sem voru með garða í sumar búnir að skrá sig fyrir garði og þá hafa nýir sett sig á biðlista.  „Menn eru ekki á förum héðan, þetta líkar greinilega vel," segir Jóhann.  Landrými er til staðar og  gerir hann ráð fyrir að það verði tekið í notkun fyrir næsta sumar til að koma til móts við þann fjölda sem hug hefur á að rækta eigið grænmeti. Uppskera var mikil í sumar og segir Jóhann að ræktendur séu í óða önn að taka upp og fara með heim. Eitthvað er hægt að geyma í jörðu enn og útlit fyrir afar gott veður um helgina.  „Fólk var hér fram í desember í fyrra að taka upp, grænkál og hvítkál þolir töluvert frost og geymist því lengi í jörð, en auðvitað er það misjafnt eftir tegundum," segir hann.

Jóhann segir að brekkusnigill hafi gert sig heimakominn í görðum í sumar og verið sumum til leiðinda, en ekki valdið umtalsverðu tjóni í uppskeru. Hann er sérlega sólgin í hvítkál og getur verið skæður, en með hugvitsemi er hægt að lokka hann í gildrum, m.a. svonefndar ölgildrur.  Pilsner eða bjór er þá látinn í krukkulok í námunda við grænmetið, snigillinn sækir í gerið og skríður ofan í og drukknar.  „Bjórinn hefur mörgum orðið að falli," segir Jóhann. Einhver afföll hafi orðið á uppskeru í sumar en við því megi búast í öllum búskap að sögn Jóhanns.

Nýjast