Mikil fækkun í komum skemmtiferðaskipa á næstu árum

Haustið hefur leyst sumarið af hólmi. Síðustu stóru skemmtiferðaskipin hafa siglt á brott og sjást e…
Haustið hefur leyst sumarið af hólmi. Síðustu stóru skemmtiferðaskipin hafa siglt á brott og sjást ekki norðan heiða á ný fyrr en næsta vor. Alls komu 216 skip til hafna innan Hafnasamlags Norðurlands, til Akureyrar, Grímseyjar eða Hríseyjar. Útlit er fyrir að komum skemmtiferðaskipa fari fækkandi á næstu árum Myndir HN

„Það lítur út fyrir umtalsverða fækkun í komum skemmtiferðaskipa til okkar hafna á næstu tveimur árum,“ segir Jóhanna Tryggvadóttir verkefna- og markaðsstjóri hjá Hafnasamlagi Norðurlands. Hafnir samlagsins eru á Akureyri, Grímsey og Hrísey. Samkvæmt bókunum sem nú liggja fyrir fækkar skipum sem hafa viðkomum í höfnum HN um ríflega 100 milli áranna 2024 og 2027, farþegum um 44 þúsund og með þeim rúmlega 1,2 milljarða króna innkoma í hagkerfið.

Síðustu stóru skemmtiferðaskip sumarsins voru á Akureyri í liðinni viku, Norwegian skipin Star og Prima sem eru góðir kunningar bæjarbúa. Tvö síðustu skipin á árinu koma síðar í október.

Ánægja með góðar móttökur

Jóhanna segir sumarið hafa heilt yfir gengið vel og fram hafi komið ánægja hjá forsvarsmönnum skipafélaganna með góðar móttökur á Akureyri, m.a. með aðstöðu og þá þjónustu sem höfnin veitir en einnig hvað varðar afþreyingu og ferðir sem í boði séu á og við bæinn. „Það eru líka allir spenntir fyrir þeirri uppbyggingu sem á sér nú stað á Torfunefsbryggju, en þar verða veitingastaðir og verslanir sem auðga mannlífið við höfnina þegar allt verður tilbúið. Einnig verður í boði rafmagnstenging fyrir minni skip sem þar liggja.“

Jóhanna nefnir að vissulega sé uppi óvissa um skipakomur á komandi árum vegna nýrra skatta og gjalda sem fyrirhuguð eru, „en við vonum svo sannarlega að ráðamenn finni góða lendingu í því máli sem kemur öllum til góða,“ segir hún.

Færri farþegar og minni eyðsla

Nú í sumar komu 216 skemmtiferðaskip í hafnir HN, talvert færri en var á metárinu í fyrrasumar þegar þau voru 256 talsins. Næsta sumar hafa 195 skip bókað komu sína og þegar horft er lengra fram í tíminn, til sumarsins 2027 má gera ráð fyrir að þau verði 155. Það þýðir að frá árinu 2024 til 2027 fækkar skipakomum um 100 skip.

Farþegar nú á liðnu sumir voru um rúmlega 255 þúsund talsins en áætlað er að þeir verði tæplega 211 þúsund talsins árið 2027, sem er fækkun upp á um 44 þúsund farþega. Jóhanna bendir á að samkvæmt útreikningum um meðalneyslu farþega í landi megi gera ráð fyrir að úr hagkerfinu hverfi um 1,2 milljarðar króna í kjölfar þess að færri farþegar verði á ferðinni norðan heiða. Meðalneysla þeirra í sumar var samkvæmt útreikningum sem þó eru varlega áætlaðir, 6,2 milljarðar króna en fer í rétt um það bil 5 milljarða. „Það munar auðvitað um minna,“ segir hún.

Vilja stöðugleika í gjaldtöku

Forsvarsmenn Hafnasamlags Norðurlands voru á dögunum á kaupstefnu í Hamborg, Seatrade Europe og segir Jóhanna að þar hafi skýrt komið fram óánægja með þá óvissu sem er fram undan varðandi rekstrar- og skattaumhverfið á Íslandi og mikil vonbrigði með hversu litlar breytingar voru gerðar á innviðagjaldinu, en skömmu fyrir ráðstefnuna tilkynntu íslensk stjórnvöld að gefinn yrði 500 króna afsláttur á innviðagjaldi í eitt ár. „Skipafélögin vilja sjá stöðugleika í gjaldtöku, ella gætu þau misst tiltrú á Íslandi sem fýsilegum áfangastað í sínum rekstri en okkur virðist sem sú þróun sé því miður hafin,“ segir hún.

Jóhanna segir skipafélögin gera áætlar til tvö til fjögur ár fram í tímann og því hafi breytingar sem gerðar voru hér með skömmum fyrirvara sett strik í reikninginn hjá þeim. „Óvissa sem fylgdi í kjölfar breytinga skilaði sér í þeirri staðreynd að það verður samdráttur í skipakomum á næstu árum,“ segir hún.

Hagsmunamál fyrir landið í heild sinni

Stóru málin sem til umræðu voru á kaupstefnunni voru innviðagjald, afnám tollfrelsis og virðisaukaskattur. „Við höfum áhyggjur af samdrætti og þá einkum og sér í lagi hjá minni höfnum, samdráttur kemur mest niður á þeim og margt bendir til að ákveðnir landshlutar detti alveg út af kortinu hjá skipafélögum verði haldið áfram með boðaðar álögur,“ segir Jóhanna og bendir á að huga þurfi að því að Íslandi verði áfram samkeppnishæft á þessum markaði. Ekki sé ólíklegt að skipafélög velji sér aðra áfangastaði að sigla á, verði óvissa áfram um álögur næstu árin og einnig ef kostnaður við að hafa viðkomu á Íslandi verði þar af leiðandi of mikill með stuttum fyrirvara. „Það má ekki verða þannig að önnur lönd verði frekar fyrir valin en Íslandi,“ segir Jóhanna.

Nýjast