Mikið að gerast í listalífinu á Akureyri um helgina

Listalífið á Akureyri er með allra fjölbreyttasta móti þessa dagana og mikið um að vera þegar kemur leiklist, myndlist og tónlist. Það má segja að páskaævintýrið í listalífinu hafi hafist í gærkvöld, þegar Leikfélag Akureyrar, í samstarfi við Vesturport, frumsýndi nýtt íslenskt verk sem nefnist Dubbeldusch og er eftir Björn Hlyn Haraldsson. Auk þess standa yfir sýningar hjá LA á verkinu Fló á skinni. Nemendur á listnámsbraut VMA, eru búnir að byggja myndarlegan snjókarl á Ráðhústorgi, sem er alls um 8 metrar á hæð. Á morgun laugardag verður svo mikið líf í Listagilinu og víðar í bænum. Listasafnið á Akureyri opnar sýninguna Bæ bæ Ísland - uppgjör við gamalt konsept, á morgun kl. 15.00. Þar koma saman 23 listamenn auk fjölda annarra og ræða landsins gagn og nauðsynjar með einum eða öðrum hætti. Einnig verður Listagilið fyllt af tónlist sem verður á höndum plötusnúðs og svo mun Karlakór Akureyrar-Geysir þenja raddböndin. Arnar Tryggvason opnar myndlistarsýningu í Populus tremula á laugardag kl. 14.00 en sýningin stendur aðeins þessa einu helgi. Þetta er önnur einkasýning Arnars sem útskrifaðist sem grafískur hönnuður frá Myndlistaskólanum á Akureyri 1995. Verkin á sýningunni eru tölvuunnar ljósmyndir, bleksprautuprentaðar á striga.

Kl. 14.30 opnar Jónas Viðar málverkasýningu í Jónas Viðar Gallery í Listagilinu. Jónas Viðar nam myndlist við Myndlistaskólann á Akureyri 1983-1997 og Academia di belle arti di carrara í Carrara á ítalíu 1990-1994 hann hefur haldið yfir 40 einkasýningar bæði hér heima og erlendis ásamt því að reka gallerí og standa fyrir sýningum annara listamanna. Á sama tíma opnar Jón Henrysson myndlistarsýninguna "Bakland" í Deiglunni. Á sýningunni verða Palli sem var einn í heiminum, Tralli á ísjakanum og Stúfur sem var orðinn stór. Einnig verða 18 íslenskar myndir á lífskraftsfernum með ávöxtum og vítamíni. Þá opnar Þórarinn Blöndal sýninguna Ský á VeggVerki á morgun laugardag. Ein einfaldasta aðferðin sem notuð er við veðurfræðilegar rannsóknir er að spá í skýin. Skýin eru eins og svífandi veðurstöðvar sem gefa vísbendingar um það sem kann að gerast í veðrinu næstu klukkustundir og jafnvel næstu daga. Frá fornu fari hafa menn notað lögun skýja, breytingar á þeim og hreyfingar á skýjum við veðurspár. Sýningin stendur til 13 april 2008.

Valgeir Guðjónsson skemmtir gestum Græna hattsins nk. laugardagskvöld. Valgeir stiklar á stóru um feril sinn sem söngvaskáld og tekur lagið eins og honum er lagið og spjallar um lögin, hvernig þau urðu til og sitthvað fleira. Tónleikarnir hefjast kl. 21.00 og húsið verður opnað kl. 20.00.

Sunnudaginn 16. mars nk. kl. 11-13 opnar sýning Ragnars Kjartanssonar "Allt er gott að frétta af póesíunni" í Kunstraum Wohnraum í Ásabyggð 2 á Akureyri. Sýning Ragnars byggist á ljósmyndum sem Ragnar tók á símann sinn í Parísarborg af þremur listakonum.

Nýjast