Þeir félagar munu flytja íslensk sálmalög á óhefðbundinn hátt. Tónleikarnir verða að stórum hluta leiknir af fingrum fram og því einstakir. "Þetta er óundirbúið og ekkert skrifað en sálmarnir hafa þó ákveðið undirspil. Við ætlum að spinna og syngja yfir sálmunum, þannig að þetta verður aldrei eins. Ég geri þetta líka þegar ég spila við helgihald en þó í minna mæli en það er nauðsynlegt til að það verði ekki of mikil rútína í starfinu. Þetta býr til ákveðna spennu og lífgar upp á starfið," segir Eyþór Ingi og Michael Jón lofar skemmtilegum tónleikum.
Afar sjaldgæft er að heyra orgelleikara á Íslandi "impróvisera" heila tónleika og helst hafa það verið erlendar stjörnur sem hingað hafa komið sem hafa treyst sér í slíkt. Það er synd því orgelið, með öllum sínum röddum og gríðarlega breiða tónsviði, er stórkostlegt hljóðfæri og tilvalið í spuna. Orgel Akureyrarkirkju hefur 50 raddir, þrjú hljómborð og pedal og eru því nánast endalausir möguleikar á styrk- og hljómbreytingum fyrir hendi.
Óhætt er að lofa því að þunglamalegur 19. aldar sálmasöngur verður ekki fluttur í Akureyrarkirkju á sunnudaginn og einhverjir tónleikagestir munu eflaust sjá sálmasöng í nýju ljósi eftir að hafa hlustað á þá Michael og Eyþór sprella á kirkjuloftinu. Tónleikarnir standa yfir í klukkustund án hlés, aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.