Árið 2017 fjölgaði einstaklingsviðtölum hjá Aflinu um 15,3% frá árinu 2016. Viðtölin voru 1403 talsins og alls komu 188 skjólstæðingar í einstaklingsviðtöl. Nýjum skjólstæðingum fjölgaði á árinu og voru þeir 149, sem er metfjöldi. Fjölgunin var 43% milli ára. Nýir skjólstæðingar voru að meðaltali 112 á ári frá 20122016. Karlmenn voru 21% nýrra skjólstæðinga og er það tvöfalt hærra hlutfall en 2016. Þetta kemur fram í ársskýrslu Aflsins.
4-5 einstaklingar vegna mansalsmála
Athygli vekur að 3% þeirra sem leituðu til Aflsins í fyrra var vegna mansals. Miðað við að fjöldi nýrra skjólstæðinga hafi verið 149 segir Elín Björg Ragnarsdóttir, formaður Aflsins, að áætla megi að 4-5 einstaklingar hafi leitað hjálpar vegna mansals.
„Það er mjög athyglisvert að sjá þetta háa tölu varðandi mansal. Það hefur komið fyrir áður að fólk hafi leitað til okkar vegna mansalsmála en ekki svona miklum mæli,“ segir Elín í samtali við Vikudag.
Hátt í 90% beitt andlegu ofbeldi
Langflestir þeirra sem til Aflsins leita eru að vinna úr fleiri en einu áfalli og tæplega 90% þeirra urðu fyrir andlegu ofbeldi. „Líkamlegu ofbeldi fylgir oft andlegt ofbeldi, sérstaklega þegar um er að ræða ofbeldi í nánum samböndum, og sést það best á því að 88% þeirra sem til Aflsins leituðu voru að vinna úr andlegu ofbeldi. Milli 50 og 60% skjólstæðinga Aflsins voru að vinna úr afleiðingum heimilisofbeldis, nauðgunar, kynferðislegrar áreitni, eineltis eða líkamlegs ofbeldis,“ segir í skýrslunni.
Elín Björg segir ljóst að #metoo byltingin hafi haft einhver áhrif á þá miklu aukningu sem varð á síðasta ári.
„Einnig hefur Aflið verið sýnilegra en áður. Við fórum í kynningarátak og ferðuðumst t.d. í sveitarfélögin hér í kring. Létum vita af okkar starfsemi. Það hefur án efa skilað árangri,“ segir Elín.
Hópastarf fyrir karlmenn
Líkt og fram kemur að ofan er meira um að karlmenn leiti sér aðstoðar hjá Aflinu. Til þessa hefur konum verið boðið í hópastarf í kjölfar einstaklingsráðgjafar en ekki hafði verið unnt að bjóða upp á hópa fyrir karla fyrr en nú. Vegna aukinnar aðsóknar karla í ráðgjöf var hópastarf með karlmönnum setti í gang í febrúar síðastliðinn.
„Aukning í komu karlmanna getur skýrst að einhverju leyti að starfsemi Aflsins hefur breyst. Þótt við höfum þann undirtitil að vera samtök gegn
kynferðis og heimilisofbeldi þá höfum við í auknum mæli verið að fá til okkar þolendur ofbeldis og eineltis. Einnig hafa fleiri karlmenn verið að stíga fram sem hafa orðið fyrir kynferðis og heimilisofbeldi,“ segir Elín