Met laxveiði í Fnjóská

Met laxveiði hefur verið í Fnjóská í sumar og 26 ágúst sl. voru 785 laxar komnir á land, sem er mesta veiði í ánni frá upphafi vega. Gamla metið í Fnjóská er 555 laxar árið 1992 og 554 laxar árið 1978, en það ár var metár í nánast öllum ám á landinu. Stærstu laxarnir sem hafa veiðst eru 18 - 19,5 pund. Nokkrir laxar yfir 20 pund hafa sloppið með látum.  

"Ennþá hefur ekki verið landað yfir 20 punda fiski okkur vitanlega en mörgum 18 - 19,5 pund. Nokkrir laxar yfir 20 pund hafa sloppið með því að slíta tauma, brjóta öngla eða hreinlega rífa úr sér með látum. Án vafa verður einhverjum landað yfir 100 cm á næstu dögum þar sem stóru hængirnir eru núna að eigna sér svæði í hyljunum," segir m.a. á vef Stangaveiðifélagsins Flúða.

Í Fnjóská er bæði lax - og silungsveiði. Sumarið 2004 veiddust 442 laxar, 2005 veiddust 452 laxar, 2006 veiddust 380 laxar, 2007 veiddust 346 laxar, 2008 veiddust 502 laxar og 2009 veiddust 417 laxar. Meðalveiði áranna 2004 - 2009 er 423 laxar. Auk þess er töluverð silungsveiði í ánni, fyrst og fremst sjóbleikja og stöku sjóbirtingur, en einnig er þar staðbundinn silungur, bæði bleikja og urriði.

Nýjast