Úlfhildur segir marga búa við afar erfiða stöðu, húsnæðislán sem og önnur lán hækki stöðugt og margir séu skuldugir, kaupmáttur hefur rýrnað og því sjái menn ekki fram á bjarta tíma. Samdráttur t.d. í byggingariðnaði hefur verulega áhrif á störf sem tengjast verslun og þjónustu og getur bitnað harkalega á félögum í Félagi verslunar- og skrifstofufólks. "Þetta fer afar illa með einstaklingana, fólk hefur áhyggjur af fjármálum sínum og ef til vill yfirvofandi atvinnumissi, þetta kemur illa við fjölskyldur og því miður verður oft brestur innan þeirra þegar ástandið er með þessum hætti," segir Úlfhildur. Nefnir hún að það hafi til dæmis þau áhrif að álag á sjúkrasjóð félagsins hefur aukist til mikilla muna á liðnum mánuðum.
"Þegar árferði er með þessum hætti, harkan eykst á öllum sviðum, þá gefast þeir hreinlega upp sem höllum fæti standa. Stundum er gripið til ráða sem ekki samræmast fyllilega ákvæðum kjarasamninga og menn láta ýmislegt yfir sig ganga til að halda sínum störfum, en svo eru aðrir sem eru ekki eins harðir af sér og þola ekki aukið álag," segir Úlfhildur.
Um 40 manns greiða nú til félagsins af atvinnuleysisbótum og eru það mun fleiri en það gerðu á sama tíma í fyrra. Þá nefnir hún að uppsagnir séu í farvatninu og ljóst sé að samdráttur muni koma niður á starfsfólki í verslunar- og þjónustustörfum og því ástæða til að hafa áhyggjur.
Hún segir allt hækka nema launin, verðbólgan sé höfuðóvinurinn og ljóst sé að eitthvað þurfi að gera. Hún gagnrýnir stjórnvöld fyrir aðgerðarleysi á erfiðum tímum, einkum liðsmenn Samfylkingar sem gefa sig út fyrir að vera málssvarar þeirra sem minna megi sín. Lítið hafi farið fyrir þeim í þeirri orrahríð sem yfir hafi staðið undanfarna mánuði. Þá gagnrýnir hún forsvarsmenn Akureyrarbæjar einnig harðlega, en þeir hafa boðað 10% hækkun á gjaldskrá bæjarins. "Þetta er alveg skelfileg staða, að mínu mati eiga opinberir aðilar líkt og bærinn að ganga á undan með góðu fordæmi og halda sem kostur er aftur af öllum hækkunum á meðan ástandið er með þessum hætti," segir Úlfhildur.