Sævar Helgason, framkvæmdastjóri Íslenskra verðbréfa, segir að ákveðið hafi verið að leggja Mæðrastyrksnefnd lið í hennar mikilvæga verkefni að styðja fjölskyldur á Eyjafjarðarsvæðinu sem standi höllum fæti. Fjölmörg fyrirtæki og einstaklingar hafa þegar lagt nefndinni lið og hvetja Íslensk verðbréf alla sem eru aflögufærir til að gera slíkt hið sama.
Jóna Berta Jónsdóttir, formaður Mæðrastyrksnefndar, segist vera afar þakklát fyrir þessa gjöf Íslenskra verðbréfa sem mun nýtast sérstaklega vel nú um jólin. Í þau rúm 20 ár sem Jóna Berta hefur komið að starfi Mæðrastyrksnefndar á Akureyri hefur aldrei áður verið jafn mikil þörf fyrir aðstoð og síðustu tvö ár. Nefndinni hefur borist svipaður fjöldi beiðna og í fyrra og er ráðgert að styðja upp undir 500 fjölskyldur nú um jólin. Skjólstæðingar nefndarinnar eru á öllu Eyjafjarðarsvæðinu auk Siglufjarðar.
Nefndin var stofnuð árið 1939 og hefur í gegnum tíðina veitt einstæðum mæðrum, einstæðum feðrum og efnalitlum fjölskyldum aðstoð með margvíslegum hætti.