Maður finnur fyrir óvissu og ótta hjá fólki

"Við erum með bæði fólk og fyrirtæki í viðskiptum og enn finnur maður aðallega fyrir óvissu og ótta hjá þessum aðilum," segir Kári Arnór Kárason framkvæmdastjóri Stapa lífeyrissjóðs. Hann segir að mönnum þyki erfitt að rýna í framtíðina og það sé vissulega ríkjandi mikil svartsýni.  

"Fyrirtæki og þá sérstaklega í bygginga- og verktakastarfsemi eru farin að segja upp fólki og þessi staða á einnig eftir að koma upp í ýmsum þjónustugreinum. Mér finnst því líklegt að við munum sjá talsverðan samdrátt hér líkt og annars staðar. Ég tel þó að áhrifin hér á þessu svæði verði minni en á Reykjavíkursvæðinu, einfaldlega vegna þess að "fylleríið" var minna hér. Það sem ég óttast að fari verst með okkur, eru þessi erlendu lán sem búið var að moka út á vegum bankanna, hér sem annars staðar bæði til fólks og fyrirtækja."

Kári Arnór segir að á norðausturhorninu hafi verið samdráttur í mjög langan tíma og menn átt þar í vök að verjast. Menn hafi því gert sér vonir um að fá í gang framkvæmdir á þessu svæði en nú sé ljóst að þær muni frestast í það minnsta og það muni vissulega hafa neikvæð áhrif. "Frestun Vaðlaheiðarganga mun líka hafa neikvæð áhrif hér. Þetta er að sumu leyti tvöfalt kjaftshögg, aflaheimildir voru skornar niður en á móti áttu menn að fá framkvæmdir á svæðinu, sem eru svo líka skornar niður."

Aðspurður um hugsanlega aðkomu lífeyrissjóða að fjármögnun Vaðlaheiðarganga eins og samgönguráðherra vakti máls á í Vikudegi í síðustu viku, sagði Kári Arnór: „Slík aðkoma er alveg hugsanleg. Þar skiptir mestu máli að tryggilega sé frá málinu gengið og að fjármunir lífeyrissjóðanna séu öruggir og beri eðlilega ávöxtun. Við erum að ávaxta lífeyri fólks og mikilvægt að það sé gert á eins öruggan hátt og kostur er ekki síst í ljósi síðustu atburða, þegar ýmislegt sem virtist öruggt reyndist alls ekki vera svo."

Kári Arnór segir að áhrifin af þeirri kreppu sem nú ríkir í landinu, séu ekki komin fram nema að litlu leyti. "Því miður munu margir missa vinnuna á næstu vikum og mánuðum og þar af leiðandi verður tekjusamdráttur. Það verður líka tekjusamdráttur hjá fyrirtækjum og hjá þeim sem eru í vinnu. Með verðbólgu og veikingu á krónunni til viðbótar verður hér gríðarleg kjaraskerðing í nánustu framtíð. Þetta á eftir að koma fram að mestu leyti. Við erum að horfa hér á ferli sem á eftir að vara næstu 2-3 árin."

Nýjast