15. október, 2010 - 09:03
Hjúkrunarráð Sjúkrahússins á Akureyri (FSA) lýsir í ályktun, yfir miklum áhyggjum af niðurskurði til heilbrigðisstofnana
á Norðurlandi og skorar á heilbrigðisráðherra að endurskoða niðurskurðatillögur. Ef sjúklingar sem þurfa að
leggjast inn á sjúkrahús til meðferðar, þurfa burt úr sinni heimabyggð og burt frá fjölskyldu um styttri eða lengri tíma, hrynur
einn af máttarstólpum búsetu.
Kostnaður ríkis og einstaklinga eykst vegna ferðakostnaðar og jafnvel uppihalds ættingja. Sjúkrahúsin í fjórðungnum (
Sauðárkróki, Siglufirði og Húsavík) gegna veigamiklu hlutverki við að taka við sjúklingum til áframhaldandi meðferðar,
eftir bráðameðferð á FSA. Ef þessi samvinna og þetta flæði sjúklinga lokast, verður meira álag á starfsfólk FSA
og núverandi sjúkrarými og mönnun á FSA dugar þá ekki til að sinna þeim verkefnum. Þetta myndi bætast ofan
á niðurskurðarkröfur á FSA og alvarlegan vanda FSA vegna skorts á sérfræðilæknum í lyflæknisfræði, segir í
ályktuninni.
Hjúkrunarráð skorar á heilbrigðisráðherra að leita annarra leiða til úrbóta.
- 1) Bráðavanda vegna læknaskorts á FSA verður að leysa strax með öllum mögulegum ráðum.
- 2) Sameina allar heilbrigðisstofnanir á Norðurlandi í eina stofnun með eina yfirstjórn og eina skrifstofu. Við það sparast augljóslega
fé sem fer í yfirbyggingu hverrar heilbrigðistofnunar en tryggir starfstarfsemi og þjónustu við íbúa.