Ljósin tendruð á jólatrénu á Ráðhústorgi á Akureyri

Á laugardaginn verða ljósin tendruð á jólatrénu á Ráðhústorgi á Akureyri og hefst dagskráin klukkan 14.50.  Jólatréð er gjöf frá Randers vinabæ Akureyrar í Danmörku. Dagskráin hefst með því að Stórsveit Tónlistarskólans á Akureyri undir stjórn Alberto Carmona spilar.  Kynnir dagskrárinnar er leik- og söngkonan Jana María Guðmundsdóttir.  

Barna- og æskulýðskór Glerárkirkju syngur undir stjórn Hjördísar Evu Ólafsdóttir, Geir Kristinn Aðalsteinsson forseti bæjarstjórnar Akureyrar flytur ávarp, Helgi Jóhannesson konsúll Dana á Akureyri afhendir bæjarbúum jólatréð fallega og það er svo í höndum hinnar 9 ára gömlu og dönskættuðu Söru Bjarkar Jóhannesdóttur að tendra ljósin á jólatrénu. Þegar búið er að tendra ljósin er komið að jólasveinunum sem koma í bæinn einungis til að syngja og sprella með krökkunum við þetta tækifæri. Auk þess að syngja jólasöngva munu þeir gefa börnunum epli og jólasmákökur.  Við sama tækifæri mun Norræna félagið á Akureyri gefa gestum og gangandi glögg og piparkökur, félagar úr Matur úr Eyjafirði verða á staðnum og gefa ýmiskonar gómsætt smakk úr firðinum og auðvitað verður hinn ofvaxni jólaköttur sem gerður var í fyrra af starfsmönnum Fjölsmiðjunnar undir handleiðslu Aðalheiðar Eysteinsdóttur listakonu, búinn að koma sér makindalega fyrir við Randers jólatréð.

Nýjast