Björn segir að svo virðist vera að nokkur áhugi sé til staðar á eignum en fólk bíði með fjárfestingar þar til mesta óvissan er gengin yfir og jafnvægi náist að nýju. "Það hefur eitthvað borið á því að menn reyni að lækka verð eigna með lágum tilboðum, en enn sem komið er virðast seljendur ekki taka slíkum tilboðum," segir Björn. Framboð eigna er nokkuð mikið um þessar mundir, en þó er ekki mikið af íbúðum á söluskrá tómar eða að fólk sitji uppi með tvær eignir. Björn segir að hluti hreyfingar á markaði nú sé í gegnum makaskipti.
"Þó er það mín trú að þegar jafnvægi í efnahagslífinu hefur verið náð á ný þá verði fasteignamarkaðurinn fljótur að taka við sér. Staðreyndin er sú að í uppsveiflu förum við ekki jafn hátt eins og á höfuðborgarsvæðinu þannig að fallið verður væntanlega ekki jafn mikið. Að mínu mati er bygging aflþynnuverksmiðjunnar við Krossanes ein af þeim stoðum sem að koma til með að hjálpa atvinnulífi bæjarbúa og fasteignamarkaðnum í gang fyrr en ella," segir Björn.
Arnar Birgisson segir að sem betur fer starfi Íbúðalánasjóður eðlilega um þessar mundir, þannig að hreyfing sé á markaði og makaskiptum hafi fjölgað töluvert að undanförnu. Hann segir mikinn fjölda húseigna á söluskrá, "og ég held að það hafi ekki verið fleiri eignir til sölu á Akureyri áður," segir hann. "Eignafjöldinn sem og minnkandi sala kalla yfirleitt á það að menn verði að taka minni og ódýrari eignir upp í stærri og dýrari, það er bara eðlileg þróun þegar svona árar." Þá nefnir Arnar að töluverð aukning hafi orðið í að fólk fjárfesti í íbúðarhúsnæði fremur en að geyma fé sitt í banka, einkum sé þar um að ræða minni íbúðir sem þyki hagstæðar til útleigu. "Ég held að það muni aukast á næstunni," segir hann.
Arnar segir að einhver lækkun hafi orðið á fasteignaverði, þó ekki á öllum eignum. Þannig seljist eignir á góðum stöðum og þær sem mikið er í lagt á ágætu verði, en lakari eignir lækki. Mikið framboð er á leiguhúsnæði, framboðið er meira en eftirspurnin og segir Björn að hugsanlega sé leiguverð orðið of hátt nú, þar sem flestir húsaleigusamningar séu verðtryggðir og leiguverð því hækkað í samræmi við aðra verðþróun. Arnar bendir svo á að þar sem mikið hafi verið byggt í bænum undanfarin á hljóti fleiri íbúðir að koma út á leigumarkaðinn og það geti skýrt hið mikla framboð leiguhúsnæðis nú.