Frá Safnasafninu er haldið í Ketilhúsið þar sem List án landamæra á Norðurlandi er formlega sett klukkan þrjú þennan
dag. Setningin er í höndum Hermans Jóns Tómassonar formanns bæjarráðs og verðandi bæjarstjóra á Akureyri.
Huglistarhópurinn opnar sýninguna Vappað inn i vorið, Stefán Fjólan flytur ljóð, Finnur Ingi Erlendsson frumflytur lag í tilefni dagsins og
svokölluð Inúítaflétta verður frumflutt en heiðurinn að henni á tónskáldið Jón Hlöðver Áskelsson.
Í Inúítafléttunni koma saman barnakór Lundaskóla, blásarar og trommarar.
Gestir Ketilhússins geta svo látið ljós sitt skína í trommuleik þegar boðið verður upp á trommuhring þar sem allir fá
að prófa undir leiðsögn Ingva Rafns Ingvasonar tónlistarmanns og kennarar við Tónlistarskólann á Akureyri. Það er mikil
eftirvænting vegna komu trommudansarans Önnu Thastum frá Grænlandi en hún er sérstakur gestur hátíðarinnar. Anna mun flytja magnaða
særingatrommudansa í Deiglunni klukkan 16.30 og 17.30 og er það einnig von þeirra sem standa að Inúítafléttunni að Anna taki
þátt í þeim flutningi.
Þegar dagskrá lýkur í Ketilhúsinu og Deiglunni er hægt að líta við í Lautinni sem er athvarf Rauða krossins fyrir fólk með
geðraskanir. Gleðin heldur svo áfram í Ketilhúsinu á laugardagskvöld með mikilli tónlistarveislu sem hefst klukkan 21. Þar koma
fram Finnur Ingi Erlendsson og Brynjar Freyr Jónsson en þeir munu m.a. spinna verk á gítara, Stefán Fjólan og Ragnheiður Arna Arnarsdóttir flytja
ljóðs, poppsveitir nemenda úr Tónlistarskólanum á Akureyri koma fram og að síðustu mun hljómsveitin Skakkamanagehalda uppi stuðinu.
Það verður einnig glatt á hjalla í Fjallabyggð en á laugardaginn opna sýningar undir hatti Listar án landamæra, beggja vegna
Héðinsfjarðar. Annars vegar í Listhúsi Fjallabyggðar í Ólafsfirði og hinsvegar í ráðhúsinu á Siglufirði.
Hátíðin heldur svo áfram eftir helgi með opnunum í Gallerí Ráðhús á Akureyri og Amtsbókasafninu svo dæmi
séu tekin. Nánari upplýsingar um viðburði næstu viku berast eftir helgi.
Hátíðin List án landamæra er nú haldin í sjötta sinn og hefur hátíðin breyst og þróast ár frá ári
og fleiri eru að verða meðvitaðir um gildi hennar í listalífinu, bæði þátttakendur og njótendur. Þátttakendum fjölgar
með hverju ári og í ár eru fleiri bæjarfélög með atburði á dagskrá en nokkru sinni fyrr. Markmið
hátíðarinnar er að koma list og menningu fólks með fötlun á framfæri.