Líf og fjör í menningunni á Akureyri um helgina

Boðið verður upp á kórsöng í sinni fjölbreyttustu mynd á kórahátíð í Menningarhúsinu Hofi á morgun laugardag. Rúmlega 20 kórar af starfsvæði Eyþings, úr Eyjafirði og Þingeyjarsýslum, munu troða upp í stóra salnum frá morgni til kvölds. Alls eru þátttakendur um 700 talsins og lýkur hátíðinni með því að allir kórarnir koma saman á svið um kl. 18.00 og flytja lokalag undir dyggri stjórn Eyþórs Inga Jónssonar.  

Aðgangur er ókeypis og er öllum velkomið að líta við í Hofi á morgun og njóta góðrar tónlistar. Fyrsta vetrardegi verður fagnað á morgun á Minjasafninu með fjölbreyttri fjölskyldudagskrá sem stendur yfir frá klukkan 14-16. Í tilefni af vetrarfríum í grunnskólum víða um land hefur opnunartími í Minjasafninu á Akureyri og Leikfangasýningunni "Leikföng frá liðinni öld"  í Friðbjarnarhúsi verið aukinn dagana 22. október - 26. október og eru opnunartíminn frá klukkan 13 - 16.  Upplagt að leggja leið sína á Minjasafnið og í Friðbjarnarhús.
Leikfélag Akureyrar er á blússandi siglingu með þrjú verk í sýningum þessa helgina. Rocky Horror er sýnt í menningarhúsinu Hofi, verkið Þögli þjónninn er sýnt í Rýminu og Algjör Sveppi, dagur í lífi stráks er sýnt í Samkomuhúsinu.   Það verður hugguleg stemmning í Listagilinu á morgun þegar Listasafnið og galleríin í Gilinu bjóða gesti og gangandi velkomna.  Listasafnið á Akureyri opnar klukkan 15 sýningu sem ber yfirskriftina Portrettnú! og er norræn portrettlist í aðalhlutverki.  Í Jónas Viðar Gallerí opnar klukkan 15 listakonan Bryndís Arnardóttir "Billa" sýninguna Teigar, Flatir, ár og vötn.  Í Menningarsmiðjunni Populus Tremula opnar svissneska listakonan Sonja Lotta sýningu sem ber heitið the complexity of letting go.  Sýningin er aðeins opin þessa helgi frá klukkan 14-17.  

Á sunnudagsmorgunn milli 11-14 verður dagskrá tileinkuð yngstu kynslóðinni í Hofi. Dýrin í Hálsaskógi mæta og skemmta sér með krökkunum. Þorgrímur Þráinsson kemur og les upp úr nýjustu bók sinni Ertu Guð, afi? sem nýverið fékk íslensku barnabókaverðlaunin 2010 og andlitsmálun verður í boði fyrir börnin. Veitingastaðurinn 1862 er með glæsilegan bröns á sunnudögum þannig að allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi.

Yfirlit yfir viðburði í Hofi má sjá á heimasíðunni www.menningarhus.is

Allar nánari upplýsingar um sýningar LA er að finna á síðunni www.leikfelag.is

Nýjast