Lengi lifi Þór í Þorpinu (lesendabréf)

 

Ágætum Þórsurum allra tíma óska ég hjartanlega til hamingju með stórsigurinn á Hamri á laugardegi lukkunnar og uppförina í Úrvalsdeild! Ég hefi persónulega aldrei haft yfir Þórsurum að kvarta; margar glæstustu minningar mínar frá Grasinu græna og hinum mjúka Moldarvelli eru stútfullar af rótburstuðum rauðum og hvítum og nægir að stikla á stærri tölum svo sem 5-0, 10-0 og 11-4. Það var reyndar hæfandi hnykkur á eitruðum ferli að leggja upp sex mörk fyrir Donna, Eyfa og Bjössa Gunn og til yndisauka gerði ég tvö síðustu mörkin acapella crescendo. Brennur mér í minni náðarstungan. Þá var sá ágæti drengur Stjáni Júll (markvörður Þórs) kominn í berjamó á bak við nyrðra markið en ég „brjóstaði" blágulan boltann inn og fékk mér í glas á línunni.  

Badda vini mínum Guðmunds og hinum fjölmörgu góðkunningjum - Eyrarpúkum ekki síst - í Íþróttafélaginu Þór óska ég gæfu og gengis í efstu deild. Ekki síst í ljósi þess að strákarnir ukkar eru Akureyrarmenn og nærsveitis. Homegrown eins og Neil Young diktaði í denn.

Auðvitað man maður flotta fótboltamenn eins Drésa frænda minn úr Fjólugötunni (Pétur Sigurðsson), yfirvegaðan og spilandi miðvörð við hlið besta varnarmanns Akureyrar, Jón heitinn Stefánsson. Og Trölli var snjall á miðjunni og alltaf dátt með okkur í Sjalla og á KEA-barnum, enda Þórsarar reyndar í fleirtölu í mínum ranni á uppvaxtarárunum. Blessuð sé minning Guðna Jónssonar. Bróðir hans Ævar ætíð snyrtilegur og leikinn bakvörður. Og assgoti var Steingrímur Björnsson lúnkinn að pota tuðrunni inn með blátánni. 

Hróður Þórs og Þorpsins berst nú víða á Veraldarvefnum. Þó eru nöturleg ummæli eins stuðningsmanns liðsins sem lengi bjó í London: „Þetta var ekki ónýt helgi eftir allt saman. Þórsarar komnir í efstu deild. Það verður gaman næsta sumar. Þórsarar komnir þangað sem þeir eiga heima. Og ekki skaðar að KA situr þar sem það á heima - svona annars-flokks-eitthvað. Við Þórsarar munum ALDREI fyrirgefa og ALDREI gleyma neinu atriði, hvorki smáu né stóru, sem KA-menn hafa gert okkur í gegnum aldirnar."

Sem óbrotnum KA-strák af Eyrinni leiðist mér lágkúra þessa siglda manns. Vitaskuld er uppför Þórs hrein og bein vítamínsprauta fyrir fótboltann í Perlu Norðursins því nú dugir ekkert annað fyrir Knattspyrnufélagið mitt kæra en að hysja upp um sig brækurnar. Enn og aptur til hamingju þrautseigir Þórsarar! ÁFRAM KA! JÁFRAM VEGINN!

Jói með ljósið í róunni ...

Nýjast