Tilkynna þarf þátttöku í málþinginu fyrir kl.12 á hádegi í dag mánudaginn 16. nóvember í miðasölu leikfélagsins í síma 4 600 200 eða kaupa miða á atburðinn á http://www.leikfelag.is/ þátttökugjald er 1.000.- kr. Dóms- og mannréttindamálaráðherra flytur framsögu ásamt Margréti Steinarsdóttur framkvæmdastjóra Alþjóðahúss, Guðrúnu Jónsdóttur forstöðukonu Stígamóta og Fríðu Rós Valdimarsdóttur mannfræðingi og höfundi skýrslunnar Líka á Íslandi. En jafnframt hafa aðstandendur verið í sambandi við Jafnréttisstofu, Mansalshóp á vegum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, Háskólann á Akureyri, lögregluna, starfsfólk Sjúkrahússins á Akureyri og fleiri og er vonast til að fólk frá öllum þessum stofnunum muni sjá sér fært að vera á málþinginu.
Þann 9. október sl. frumsýndi Leikfélag Akureyrar leikritið LILJA, eftir Jón Gunnar Þórðarson. Verkið fjallar um mansal og byggir á sannri sögu 16 ára stúlku frá Litháen, sem seld var mansali til Svíþjóðar, þar sem hún var læst inni og neydd til að stunda vændi. Hún slapp út eftir þó nokkurn tíma, en hafði þá í engin hús að venda og sá enga aðra leið en að taka líf sitt. Verkið byggir lauslega á kvikmyndinni Lilja 4 Ever, frá 2002. Um það leyti sem verkið Lilja var frumsýnt, var fyrsta mansalsmálið dómtekið á Íslandi, og ung stúlka frá Litháen, meintur brotaþoli mansals, komst í hendur lögreglunnar á Suðurnesjum. Lilja hefur verið sýnd fyrir fullu húsi hjá Leikfélaginu frá fyrstu sýningu. Sýningin hefur vakið sterk viðbrögð og í umræðum sem boðið hefur verið upp á eftir sýningar hafa leikhúsgestir óhikað tekið til máls og heitar umræður orðið. Það er greinilegt að almenningur hefur alls ekki verið meðvitaður um að mansal væri til á Íslandi og að fólk hefur áhyggjur. Það veltir fyrir sér hvað hægt sé að gera og - hvort eitthvað sé verið að gera. Hvernig hjálpum við brotaþolum mansals og hvernig losum við landið okkar við þessa glæpastarfsemi? Er aðgerðaáætlunin að fullu komin til framkvæmda? Hvað getur almenningur gert?