Keyrðu um golfvöllinn á Akureyri á vélsleða og fjórhjóli

Óprútnir náungar á vélsleða og fjórhjóli keyrðu á tækjum sínum inn á golfvöllinn að Jaðri á Akureyri seinni partinn í gær og hafði m.a. verið spólað í marga hringi fjórhjólinu á tveimur flötum vallarins þeirri 10. og 12. Steindór Ragnarsson vallarstjóri var lítt hrifinn af þessari heimsókn enda völlurinn lokaður og mjög viðkvæmur. Hann sagði erfitt að meta skemmdir þar sem snjór er yfir vellinum en þó hafi verið spólað niður á gras á flötunum.  

"Ég vona að þetta sleppi, enda er frost í jörð." Steindór sagði að þeir sem þarna voru á ferð hafi gefið sér góðan tíma og farið yfir stóra hluta suðurvallarins á tækjum sínum. Golfklúbbur Akureyrar hefur orðið heldur illa fyrir barðinu á óprútnum náungum á árinu. Fyrir rúmri viku var brotist inn í golfskálann, rúða var brotinn og fjórum bjórum stolið. Ein bjórflaskan var þó brotinn á golfinu þegar komið var að. Þá hefur nokkrum sinnum verið brotist inn í vélageymslu GA og unnar skemmdir á tólum og tækjum, auk þess sem skemmdir voru unnar á nýrri flöt á 17. braut í sumar. Búið er að setja upp öflugt öryggiskerfi að Jaðri, með myndavélum við golfskálann og vélaskemmuna og vonast Steindór til að það dugi til að halda fólki frá.

Nýjast