„Þetta leggst bara dúndrandi vel í mig og verður vonandi afskaplega skemmtilegt,” segir Bjarni Fritzson handboltakappi í samtali við Vikudag, sem á morgun mun skrifa undir eins árs samning við Akureyri Handboltafélag og leika með liðinu næstu leiktíð. Bjarni spilaði með FH á síðasta tímabili og var markahæsti leikmaður N1- deildarinnar. Hann á einnig fjölmarga landsleiki að baki og ljóst að hann verður mikill liðsstyrkur fyrir norðanmenn þegar handboltavertíðin hefst í haust. Bjarni segir viðræðurnar við Akureyri hafa staðið yfir í þónokkurn tíma.
„Forsvarsmenn Akureyrar höfðu fyrst samband við mig um leið og Íslandsmótið kláraðist. Ég hafði fyrst hug á því að fara aftur út í atvinnumennskuna en það voru frekar óspennandi lið sem stóðu mér þar til boða, þannig að ég ákvað að vera áfram á klakanum og þá fóru viðræður við Akureyri á fullt.”
Hann segir þrjú lið hafa komið til greina hér á landi, FH, ÍR og Akureyri. „Ég valdi Akureyri aðallega útaf því að mig langaði að breyta aðeins til. Strákarnir mínir eru ungir og það er gaman fyrir þá að fá að prófa eitthvað nýtt.” Bjarni segir Akureyrarliðið spennandi og að hann ætli sér stóra hluti með liðinu á komandi keppnistímabili.
„Liðið spilar hraðann bolta sem hentar mér mjög vel. Það er nokkrir mjög efnilegir strákar þarna í bland við eldri reynslubolta og þetta verður bara góð blanda. Það er nokkuð ljóst frá mínum bæjardyrum að ég er kominn til þess að berjast um titla. Ég er ekkert að fara mæta norður og spila um fimmta sætið,” segir Bjarni Fritszon, verðandi liðsmaður Akureyrar Handboltafélags.