Kaupum Funa á hlut Léttis í Melgerðismelum hafnað

Meirihluti sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar hefur hafnað erindi frá Hestamannafélaginu Funa um kaup á hlut Hestamannafélagsins Léttis í Melgerðismelum. Í tillögu meirihluta H-lista, sem samþykkt var á fundi sveitarstjórnar, kemur m.a. fram að fjárhagsstaða Hestamannafélagsins Funa sé með þeim hætti að sveitarstjórn telji það ekki þjóna hagsmunum þess að auka við skuldabyrðina. Sveitarstjórn heitir hins vegar áframhaldandi stuðningi við Hestamannafélagið Funa í sínu félagsstarfi.  

Eftirfarandi tillaga var lögð fram af fulltrúum F-listans:  "Fulltrúar F-listans telja að hafna beri erindi Funa um lán til kaupa á hlut Léttis í Melgerðismelum þar sem þeir telja ekki forsvaranlegt að hluti lánsins verði nýttur til að greiða upp eldri skuldir félagsins eins og bókun félagsfundar Funa gerir ráð fyrir. F-listinn telur hinsvegar mikilvægt að efla starfsemi Funa og leggja því til að Eyjafjarðarsveit kaupi hlut Léttis í Melgerðismelum í samræmi við kauptilboð sem liggur fyrir milli félaganna."

Tillagan var felld með  4 atkvæðum fulltrúa H-listans og óskuðu þeir að eftirfarandi yrði bókað:  "Fulltrúar H-listans telja ekki fært að styðja tillögu F-listans um að  kaupa hlut Léttis í mannvirkjum á Melgerðirsmelum á kr. 6.000.000- þar sem þeir telja að óbreytt ástand hamli ekki þeirri starfsemi sem nú þegar fer fram á Melgerðismelum og breyti  engu um skuldavanda  félagsins."

Nýjast