Kartöflubændur fara fram á hækkun eftir áramót

Samningur kartöflubænda rennur út um næstu áramót og munu þeir í kjölfar þess kappkosta að fá til sín hækkun, en verslanir hafa að undanförnu hækkað kartöfluverð en lítið hefur komið í þeirra vasa . Telja kartöflubændur að þeir þurfi að fá allt að 20 króna hækkun til að mæta auknum kostnaði við framleiðsluna.  

Bergvin Jóhannsson formaður Félags kartöflubænda segir að nú sé mælirinn fullur og um leið og samningar verði lausir um komandi áramót muni þeir af fremsta megni knýja fram hækkun.  Hann segir að framleiðslukostnaður hafi aukist umtalsvert á liðnum mánuðum, en kartöflubændum sé enn greitt smánarverð fyrir afurðir sínar.  Það hafi svo haft í för með sér að sífellt fækkar í hópi kartöflubænda, þeir hætti einn af öðrum og nýliðun í greininni sé alls engin.  Bergvin segir menn ekki sjá neinn hag í því að hefja kartöflurækt undir þessum kringumstæðum.

Hann segir að fái bændur ekki meira í sinni hlut nú eftir áramót blasi við að enn fleiri kartöflubændur muni hætta ræktun, enda borgi sig engan veginn að framleiðla kartöflur hafi menn ekki tekjur af starfsemi sinni.  Það hversu lágt verð sé greitt til þeirra, hafi svo haft í för með sér að kartöflubændur geti ekki fylgt eftir þeirri þróun sem orðið hefur í greininni, bæði hvað varðar tækjakaup og eins sé hvergi á Íslandi til sérhannaðar kartöflugeymslur  eins og víða tíðkast.

Nýjast