Karlmaður dæmdur fyrir líkamsárás við Sjallann í vor

Karlmaður hefur verið dæmdur í Héraðsdómi Norðurlands eystra í fjögurra mánaða fangelsi skilorðsbundið til þriggja ára fyrir líkamsárás við Sjallann á Akureyri sl. vor.  

Maðurinn var ákærður fyrir líkamsárs, með því að hafa aðfaranótt mánudagsins 12. maí 2008, við skemmtistaðinn Sjallann á Akureyri, slegið konu þungu hnefahöggi í andlitið með þeim afleiðingum að hún hlaut nefbrot með hliðrun á nefi sem leiddi til þess að rétta þurfti nefbrotið í svæfingu, auk þess sem hún hlaut þó nokkuð mar undir báðum augum. Maðurinn játaði sök fyrir dómi. Hann lýsti því fyrir dómi sem og við skýrslutöku hjá lögreglu að brotaþoli hafi áður en þetta atvik varð slegið hann margsinnis í höfuð og hótað honum og unnustu hans illu. Skömmu síðar hafi þau rekist saman í anddyri skemmtistaðarins og brotaþoli þá rekið hnéð í klofið á honum.  Hann hafi þá slegið hana eitt högg í andlitið eins og í ákæru er lýst.

Af hálfu ákæruvaldsins var því lýst yfir að það rengdi ekki að árás ákærða hefði átt sér aðdraganda í þessa veru.  Með tilliti til þess var talið heimilt að beita refsilækkunarheimild. Með broti sínu rauf ákærði skilorð dóms frá 14. september 2006 þar sem hann var dæmdur í 30 daga fangelsi, skilorðsbundið í tvö ár, fyrir brot gegn umferðarlögum og almennum hegningarlögum.  Við ákvörðun refsingar var einnig litið til þess að ákærði hefur gerst sekur um ítrekað ofbeldisbrot.  Hann var því dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi, skilorðsbundið til þriggja ára og til greiðslu sakarkostnaðar upp á 12.500 krónur. Dóminn kvað upp Erlingur Sigtryggsson héraðsdómari.

Nýjast