Kærum vegna aksturs undir áhrifum vímuefna fjölgar ört

Kærum vegna aksturs undir áhrifum vímuefna hefur fjölgað mjög að undanförnum. Má það einkum rekja til þess, að sögn Gunnars Jóhannessonar lögreglufulltrúa hjá Lögreglunni á Akureyri, að ný tæki og tækni voru tekin í notkun á liðnu ári sem gera lögreglumönnum nú auðveldara um vik að greina strax á vettvangi hvort ökumenn séu undir áhrifum vímuefna. „Frá því þessi tæki voru tekin í notkun hefur kærum fjölgað umtalsvert," segir Gunnar. Lágmarksrefsing við akstri undir áhrifum ávana- og fíkniefna, fyrsta broti, er ökuleyfissvipting í þrjá mánuði, 30 þúsund króna sekt að lágmarki, fer eftir því hve mikið mælist í blóðinu, auk málskostnaðar sem getur numið tugum þúsunda. Við ítrekuð brot hækka sektir og svipting ökuleyfis verður lengri. Gunnar segir ástand fíkniefnamála í bænum í svipuðu horfi og verið hafi undanfarin ár, það sé hvorki betra né verra en áður. Framboð af fíkniefnum virðist ætíð vera nóg og þó svo að þekktir salar séu teknir úr umferð eru aðrir fljótir að fylla þeirra skarð. „Það eru miklir peningar í umferð í þessum heimi og á meðan svo háttar eru margir tilbúnir að taka þátt," segir Gunnar. „Þetta er stríð, en ég held að menn hljóti að gera sér grein fyrir því fyrr en síðar að það vinnst ekki." Gunnar segir um þjóðfélagsmein að ræða sem kosti samfélagið mikið fé, þar megi nefna löggæslu, dómskerfið, félagskerfið og heilbrigðiskerfið sem öll koma að málum með einum eða öðrum hætti. Algengt er að sögn Gunnars að virkir fíklar nýti sér félagskerfið m.a. til að sækja sér atvinnuleysis- eða örorkubætur og þá mæði einnig mikið á heilbrigðiskerfinu. „Þegar allt er tínt til kostar þetta samfélagið óhemju mikla peninga, ég hugsa að margir geri sér ekki grein fyrir því hvað þessi ógæfa kostar," segir hann. Hvert kerfi sem áður er nefnt vinnur að málum, en heildarstefna eða samvinna þeirra á milli er ekki fyrir hendi. „Það berjast allir í bökkum, það vantar all staðar fé til þessa málaflokks og því hafa menn ekki unnið saman, enda þarf óskaplega mikið til að þoka málum áfram," segir Gunnar.

Nýjast