KA og Þór gerðu bæði jafntefli í leikjum sínum í kvöld

KA og Fjarðabyggð gerðu 2:2 jafntefli á Akureyrarvelli í kvöld á Íslandsmótinu í 1. deild karla í knattspyrnu. KA hafði 1:0 forystu í hálfleik en leikmenn Fjarðabyggðar komu sterkir til baka í seinni hálfleik og skoraði tvívegis á fjögurra mínúta kafla um miðbik hálfleiksins. KA náði að jafna metin þegar um stundarfjórðungur var til leiksloka og lokatölur 2:2. Mörk KA í leiknum skoruðu þeir Steinn Gunnarsson og Daniel Alan Stubbs en mörk Fjarðabyggðar gerðu þeir Andri Hjörvar Albertsson og Fannar Árnason.

 

Á Valbjarnarvelli gerðu Þróttur R. og Þór einnig jafntefli en þar urðu lokatölur 1:1. Dusan Ivkovic skoraði mark Þróttar en Atli Sigurjónsson jafnaði fyrir Þór. Þá gerðu Víkingur R. og Leiknir R. einnig jafntefli í sínum leikjum og því er staða þriggja efstu liðanna óbreytt eftir leiki kvöldsins. Víkingur gerði 1:1 jafntefli við ÍA á Skaganum og Leiknir R. og Grótta gerðu markalaust jafntefli á Gróttuvelli.  

Víkingur situr því áfram á toppi deildarinnar með 35 stig, Leiknir er í öðru sæti með 33 stig og Þór í því þriðja með 31 stig. KA hefur 23 stig í sjötta sætinu.

Nýjast