Blaklið KA í karla-og kvennaflokki voru í eldlínunni í gær á Íslandsmótinu er bæði lið sóttu HK heim í Fagralund. Í karlaflokki hafði KA betur 3:1. HK byrjaði betur og vann fyrstu hrinuna 25:23. Norðanmenn unnu hins vegar næstu þrjár hrinur, 25:22, 25:20 og 25:20. Piotr Kempisty var stigahæstur hjá KA í leiknum með 28 stig en Davíð Búi Halldórsson kom næstur með 12 stig. Í liði HK var Orri Þór Jónsson stigahæstur með 14 stig og Alexander Stefánsson skoraði 10 stig.
Staðan í deildinni er þannig að Stjarnan hefur 14 stig á toppnum, HK er í öðru sæti með 13 stig og KA hefur 12 stig í þriðja sætinu. KA leikur gegn Fylki á morgun kl. 16:00 í Fylkishöllinni og með sigri komast norðanmenn í toppsætið.
Í kvennaflokki snerist dæmið við í Fagralundi, þar sem HK vann nokkuð örugglega 3:0 gegn KA. Kópavogsstúlkur unnu allar hrinurnar með tölunum 25:16, 25:13 og 25:17.
Fríða Sigurðardóttir skoraði 10 stig fyrir HK en Velina Apostolova kom næst með 9 stig. Í liði KA var Eva Sigurðardóttir stigahæst með 8 stig og nýkrýnd blakkona ársins, Birna Baldursdóttir, var með 6 stig.
Þróttur N. er á toppi deildarinnar með 10 stig, HK hefur 9 stig í öðru sæti og Ýmir er í þriðja sætinu með 6 stig ásamt KA, en þau lið mætast í dag kl. 13:30 í Fagralundi.