04. nóvember, 2007 - 20:20
Jónas Þór Hallgrímsson rjúpnaskytta á Húsavík gekk til rjúpna á sínum gömlu heimaslóðum í Mývatnssveit um helgina og hann sagði í samtali við Vikudag nú í kvöld að það hefði verið frekar lítið að hafa. Hann var þó kominn með 22 rjúpur í hús, veiddi 12 í gær og 10 í dag. Jónas sagði að mikið rok hafi verið í Mývatnssveit í dag og aðstæður því erfiðar. "Ég sá þó meira af rjúpu í gær en nokkru sinni í fyrra." Jónas sagðist hafa heyrt af einum veiðimanni sem hafi fengið 16 rjúpur í gær en annars væru menn með þetta 2-5 rjúpur eftir daginn. Töluvert snjóaði fyrri part vikunnar og það gerði mönnum nokkuð erfitt með að komast yfir svæðin fyrstu dagana. Í dag hafði snjóinn tekið mikið upp en þá var það mikið hvassvirði sem gerði mönnum erfitt fyrir.