Það er alltaf gaman og gott að líta til baka, horfa yfir farinn veg og sjá hvernig lífið var og bera það þá um leið saman við þann tíma sem við lifum í dag. Ég var svo heppinn að alast upp í stórri fjölskyldu átti marga bræður og systur, afa og ömmur, og fjöldan allan af frændum og frænkum. Þá skal geta allra vinanna en þeir voru margir. Foreldrar mínir bjuggu í Oddeyrargötunni og á þeim tíma var gatan iðandi af lífi því í hverju húsi voru mörg börn. Skátagilið var vettvangur margskonar leikja. Þar var leikinn knattspyrna og ýmsar aðrar íþróttir og leikir iðkaðir. Á vetrum var Skátagilið besta skíðabrekkan í bænum og renndum við okkur frá Oddeyrargötu og alveg niður í portið hjá Útvegsbankanum í Hafnarstræti. Við kepptum í svigi, bruni og stökki og í minningunni voru þetta dásamlegir tímar.
Jólin í Oddeyrargötunni fyrir rúmlega 50 árum komu snemma og við héldum þeim eins lengi og við gátum með góðu móti. Foreldrar okkar fóru snemma að draga að ýmsilegt sem skyldi verða á borðum yfir hátíðina. Það þurfti líka oft að mála stofuna, ganginn eða eitthvað herbergi og sá pabbi um það með góðri hjálp okkar eldri bræðra. Mikið reyndi á mömmu í öllum þessum undirbúningi. Hún byrjaði að baka smákökur, tertur og fleira í nóvember, og þar sem munnarnir voru margir sem þurfti að metta, urðu kökudunkarnir að vera margir og býsna stórir. Þá varð hún einnig að taka tillit til þess að tvö systkina minna voru með sykursýki og máttu ekki borða neitt sem sykur var í. Fyrir þau þurfti að baka sérstakt brauð við þeirra hæfi. Að baka laufabrauðið var sérstök athöfn sem alla hlakkaði til að gera. Mamma gerði deigið og Ásrún amma kom og flatti út kökurnar. Síðan voru það við börnin sem skárum út og nutum leiðsagnar þeirra sem eldri og reyndari voru. Við urðum að gera þetta vel og lærðum við mörg afbrygði að útskurði. Þegar kom að því að steikja laufabrauðið sá pabbi um það. Svona var verkaskiptingin, en lagaðar voru hátt í tvöhundruð kökur að jafnaði. Amma fór með einhverjar kökur með sér heim en annað var borðað af okkar fjölskyldu.
Allir félagsmenn í KEA
Svo þurfti að sauma eða kaupa jólaföt á allan hópinn en foreldrar okkar sáu alltaf til þess að enginn fór í jólaköttinn. Pabbi vann hjá KEA all sína starfsævi og kenndi okkur að tala með virðingu um kaupfélagið og stjórnendur þess. Hann sagði alltaf kaupfélagið okkar þegar hann ræddi um það sem ekki var svo sjaldan. Ef hann þurfti að taka stórar ákvarðanir, sagði hann alltaf "ég verð að ræða það við Jakob" en þá átti hann að sjálfsögðu við Jakob Frímannsson kaupfélagsstjóra. Hann sá til þess að við systkinin gengum snemma í kaupfélagið, því þar vildi hann að við værum félagsmenn. Það kom okkur líka vel til góða þegar t.d. epli eða aðrir ávextir voru skammtaðir á hvert KEA númer fyrir jólin fékk okkar fjölskylda nægjanlegt magn til þess að allir gætu fengið góðan jólaskammt af þessum kræsingum. Við áttum í fleiri ár fallegt útlenskt jólatré og þegar kom fram undir jól var það tekið niður af háalofti og við skreyttum það sameiginlega. Við systkinin vorum alin upp eins og strákar og stelpur voru á þessum tíma. Stelpurnar hjálpuðu mömmu með húsverkin og við strákarnir hjálpuðum pabba, en hann rak alltaf fjárbú samhliða vinnu sinni hjá KEA.
Til að byrja með var húsið okkar, Oddeyrargata 32, kynnt með kolum og kom það þá í hlut okkar eldri bræðra að kynda upp snemma morguns áður en við fórum í skólann. Við héldum svo hitanum í lagi fram á kvöld. Okkur þótti það mikill lúxus þegar olíukyndingin kom og við sluppum við kola og öskuburð.
Við bræðurnir vorum miklir grúskarar og litum miklum hrifningaraugum á jólastjörnuna og bjölluna sem hengdar voru upp á KEA horninu fyrir jól. Ljósadýrðin var mikil og við vorum mjög hrifnir af þessu. Okkur langaði að setja svona jólaljós í Oddeyrargötuna og gerðum ýmsar tilraunir með það, en lengi vel sprengdum við bara öryggin. Svo komust við upp á lag með þetta og bjuggum til forláta jólaseríu yfir útidyrnar í Oddeyrargötunni og settum VEX brúsa úr Sjöfn umhverfis perunar til að verja þær. Þetta var fyrsta jólaskreyting með þessu sniði í Oddeyrargötunni.
Börnin voru látin vinna
Við vorum ekki mjög gamlir bræðurninr þegar við fórum að fá okkur vinnu í jólafríinu. Við vorum sendlar hjá afa fyrir kaupfélagsskrifstofurnar, unnum á lagernum, vorum sendlar hjá Kristni í matvörudeildinni eða unnum á "clarknum" í kornvöruhúsinu. Við unnum ekki í fóðurblöndunni fyrr en eftir 12 ára aldur, en þá taldi pabbi að við gætum auðveldlega haldið undir horn á fóðurblöndupoka. Á þessum tíma voru börn látin vinna og var það meðalið við ofvirkni. Ég held að við höfum bara haft gott af þessari vinnnu og ekki skemmdi það fyrir að við fengum líka kaup. Ég man eftir því að ég gat keypt mér armbandsúr á þorláksmessu fyrir það sem ég hafði unnið mér inn fyrir jólin þegar ég var 11 ára.
Hversu mikið sem við börnin unnum komust við aldrei í nánd við það sem mamma þurfti sem húsmóðir á stóru heimili að vinna. Sérstaklega var það fyrir jólin þegar hún setti metnað sinn í það að allt væri hreint og fínt, búrið fullt af mat og öll börnin hrein og fín í nýjum og fínum fötum. Þá gat vinnudagurinn hennar orðið mjög langur. Það var föst venja hjá henni að fara í bæinn að kveldi Þorláksmessu en þá var alltaf opið fram eftir kvöldi. Þá gerði hún þau innkaup sem hún átti eftir. Oft voru það jólagjafir til barnanna sem þá voru keyptar en þær komu okkur alltaf á óvart. Þegar hún svo kom heim um miðnættið átti hún eftir að gera síðustu verkin og ég veit að stundum fór hún ekki að sofa fyrr en undir morgunn. Á aðfangadag gafst ekki tími fyrir hana að sofa því snemma morguns var allt komið á fullt skrið, pabbi til vinnu og við systkinin höfðum einnig mikið að gera t.d. skildi moka snjó af stéttum þannig að jólasveinninn og aðrir gestir ættu greiða leið heim að dyrum. Þá skal þess getið að á þessum árum fengu öll þæg börn gott í skóinn alveg eins og viðgengst í dag.
Með pabba í fjárhúsin
Við borðuðum alltaf mjólkurgraut í hádeginu á aðfangadag, og allir fengu slátur með. Eftir hádegi áttu yngstu börnin að reyna að sofna þannig að þau væru fær um að vaka fram eftir á aðfangadagskvöldinu. Elstu bræðurnir fóru með pabba í fjárhúsin en það skildi einnig gera vel við kindurnar á þessum dögum. Einhver úr stórfjölskyldunni ferðaðist á milli fjölskyldna og kom með jólapakka og sótti sína. Einnig var skipst á jólakortum. Þeir sem ekki höfðu farið í bað á Þorláksmessu böðuðu sig eftir hádegið á aðfangadag því enginn skildi vera óhreinn um jólin.
Það var mikill hátíðleiki þegar klukkan sló sex á aðfangadag. Undir jólatréinu var mikill fjöldi jólapakka því allir fengu marga slíka. Þá var sest að jólaborði og alltaf góður og mikill matur á borðum. Aldrei var farið í messu á þessum tíma en pabbi sagði það ekki vera guði almáttugum þóknanlegt að fara til kirkju á matartíma. Reynt var að sitja lengi við borðhaldið til að leggja áherslu á hátíðleikann. Þegar svo matnum lauk var komið að því að við bræður skyldum vaska upp og ganga frá í eldhúsi, en það var okkar starf á jólum. Mamma og systurnar skyldu fá frið fyrir þeim störfum á aðfangadagskvöld og gamalárskvöld. Þegar svo þessu var lokið var komið að jólapökkunum.
Fyrst þurfti þó að vekja mömmu en í minningunni sofnaði hún alltaf í djúpum stól í stofunni meðan við löguðum til í eldhúsinu, en hún hafði ekki sofið mikið síðustu sólarhringa. Á stóru heimili og í stórri fjölskyldu gátu pakkarnir orðið margir en að opna þá var hin stóra stund fyrir okkur börnin og alla fjölskylduna.
Skutum niður forláta kristalvasa
Fyrstu jólaminningarnar úr Oddeyrargötunni segja mér að við fórum um kvöldið til Ólafs afa og ömmu í Brekkugötunni. Þau voru bæði Vopnfirðingar og afi var stoltur af því að vera af Bustafellsættinni. Eitt sinn höfðum við elstu bræðurnir fengið fótbolta í jólagjöf. Við höfðum hann með til afa og ömmu, en enduðum kvöldið með því að skjóta niður forláta kristalsvasa sem ekki þoldi knattspyrnuæfingar okkar. Amma sagði lítið en afi var byrstur á svipinn. Eftir að afi dó kom Ásrún amma og Guja oft til okkar á jólunum, Guja var ráðskona hjá ömmu og hafði fylgt henni úr Vopnafirðinum. Hún var heyrnarlaus en hún og amma skildu þó vel hvor aðra. Þessar gömlu konur voru mjög vinsælar af okkur börnunum, og okkur krökkunum fannst þær æðislegar. Amma var einstök amma eða eins og ömmur eiga að vera. Hún sagði okkur sögur og margar úr Vopnafirðinum sem var henni svo kær. Ég man eftir einni sögu sem var í ljóðaformi og byrjaði svona:
Ég segi þér söguna aftur
söguna frá í gær.
Af litlu stúlkunni ljúfu
með ljósu flétturnar tvær.
Lengra man ég ekki en ef einhver kann áframhaldið þætti mér gott að fá að heyra það svo ég geti sagt þessar sögur áfram til minna barnabarna. Til okkar kom einnig á jólum og öðrum tímum hann Sali. Hann var einnig úr Vopnafirðinum og hafði komið til Akureyrar um svipað leiti og afi og amma og var hálfgerður fóstursonur þeirra. Hann leigði herbergi í kjallaranum í Oddeyrargötunni. Hann var svolítið sérlegur, einhleypur en góður og þótti okkur börnunum mjög vænt um hann. Hann fylgdi síðan okkar fjölskyldu alveg til dauðadags. Okkur fannst jólakvöldið allt og fljótt að líða og óskuðum þess oft að tíminn stöðvaðist um stund á aðfangadagskveldi. Þrátt fyrir ýmsa góða hæfileikamenn í fjölskyldunni tókst þó engum að stöðva klukkuna fyrir okkur. Síðasta verk okkar á aðfangadagskvöldi var að að koma ömmu og Guju heim, en stundum var þeim ekið en ef veður var gott, gengu þær heim en þá alltaf í fylgd okkar bræðra.
Á jólum voru allir vinir
Við reyndum að sofa lengi á jóladag en síðar um daginn var aftur mikil veisla sem mamma hafði undibúið lengi. Það var kalt borð með mörgum réttum, köldum og heitum. Að sjálfsögðu Ora baunir, rauðkál, kartöflur og sósa, að ógleymdu laufabarauðinu og smjörinu. Þessi máltíð var mikið stolt mömmu og lagði hún sig alla fram við að finna nýja og nýja rétti á hverjum jóladegi. Þá mættu oft aftur amma og Guja og að sjálfsögðu Sali.
Jólin voru líka notuð til heimsóknar en samheldni var mikil í stór fjölskyldunni og fólk notaði jólin til að heimsækja hvort annað. Það sem við börnin tókum eftir var að á jólum voru allir vinir og aldrei man ég eftir misklíð milli manna á þessum dögum. Handtökin voru innileg og eða fólk faðmaði hvert annað að vísu svolítið misjafnt eftir fjölskyldum en innileikinn var greinilegur. Við klæddumst jólafötunum og vorum stillt og prúð í öllum heimboðum. Á kvöldin var spilað og sungið, en þó mátti ekki spila á spil á aðfangadagskvöld. Mamma spilaði bæði á píanó og harmonikku og spilaði undir og stjórnaði söng .
Því miður þá stóðu jólin ekki til eilífðar en þó stóð okkar jólatré alltaf uppi til 21. janúar en þá átti Sossa heitin systir okkar afmæli. Þá var haldið síðasta jólaboðið í fjölskyldunni samhliða afmæli hennar. Þann 22 janúar var jólatréð tekið niður og jólunum okkar í Oddeyrargötunni formlega lokið og biðin eftir næstu jólum hófst.