Ragnar Sverrisson formaður Kaupmannafélags Akureyrar segir að mikið hafi verið um gesti í bænum um liðna helgi og raunar um helgar í nóvember líka. „Það er greinilegt að alls konar hópar, starfsmannafélög, saumaklúbbar og fleiri slíkir koma til Akureyrar í menningar- og verslunarferðir í stað þess að fara til útlanda. Við verðum mikið vör við það og þykir ánæjulegt," segir Ragnar.
Hann segir að jólaverslun fari af stað með álíka hætti og síðastliðin tvö ár, eftir að kreppan skall á. Ástandið sé á ný orðið eðlilegt, líkt og var áður og menn hófsamari og velti hlutunum meira fyrir sér. „Fyrir okkur hér á Akureyri skiptir tíðarfarið miklu máli, þegar veður er gott og færðin líka sjáum við mikið af fólki úr nágrannabyggðum og raunar allt austur á Djúpavog og vestur um í Húnvatnssýslur," segir Ragnar. Þá hafi fólk af höfuðborgarsvæðinu í auknum mæli sést á ferð um bæinn, hópar sem m.a. sæki menningarviðburði, fara í jólahlaðborð og skoði sig um í verslunum.
Vilborg Jóhannsdóttir kaupmaður í Cenrto tekur í sama streng og segir að jólaverslun fari ágætlega af stað og mikið hafi verið um að vera um liðna helgi. „Það var mikið af fólki í bænum, við urðum vör við það bæði í verslun okkar í miðbænum og á Glerártorgi. Það er ævinlega fjöldi fólks í bænum um helgar þegar veður er gott," segir hún. Þá hafi t.d. afmæli Glerártorgs á dögunum laðað að mikinn fjölda og fleiri viðburðir sem efnt er til í bænum, m.a. í menningarhúsinu Hofi. Margir sæki sýningar Leikfélags Akureyrar og þannig mætti lengi telja. „Allt hefur þetta áhrif," segir Vilborg. „En verslanir eru ef svo má segja eins konar söfn sem opin eru lengi, frítt inn og allir velkomnir."