Jóhann Helgi tryggði Þór þrjú stig á Akureyrarvelli

Jóhann Helgi Hannesson var hetja Þórsara í kvöld er hann skoraði bæði mörk liðsins í 2:0 sigri gegn KA á Akureyrarvelli í kvöld í 1. deild karla í knattspyrnu. Jóhann Helgi skoraði bæði mörkin á átta mínútna kafla í seinni hálfleik. Þar með er Þór komið í þriðja sæti deildarinnar með 18 stig, stigi eftir toppliðinum tveimur Leikni og Víkingi R. KA situr hins vegar í tíunda sæti deildarinnar með níu stig og eftir tapið í kvöld blasir fátt annað en fallbarátta við liðinu.

 

Eftir bragðdaufann og tíðindalítinn fyrri hálfleik færðist fjör í leikinn í þeim seinni. Á 62. mínútu fengu Þórsarar hornspyrnu og upp úr henni kom fyrsta mark leiks þegar Jóhann Helgi skallaði boltann í netið og staðan 1:0. Átta mínútum síðar var Jóhann Helgi aftur á ferðinni. Hann fékk þá boltann fyrir utan vítateig KA- manna, lagði boltann fyrir sig og skoraði með góðu skoti í stöngina og inn.

 

Eftir annað markið voru Þórsarar mun líklegri til bæta við þriðja markinu en KA að minnka muninn. Þórsarar voru einfaldlega betri í kvöld og fögnuðu sanngjörnum 2:0 sigri og eru til alls líklegir í toppslagnum.

Nýjast