J-listi kærir ekki - Svanfríður áfram bæjarstjóri

J - listinn á Dalvík mun ekki kæra úrskurð kjörnefndar sýslumannsins á Akureyri um niðurstöðu sveitarstjórnarkosninga í Dalvíkurbyggð hinn 29. maí sl.  Í yfirlýsingu frá framboðinu segir að J - listinn sé óháð framboð, ekki borinn fram af stjórnmálaflokki á landsvísu og trúnaður listans sé eingöngu bundinn hagsmunum Dalvíkurbyggðar og íbúa sveitarfélagsins.

  Í yfirlýsingunni segir síðan: "Það er mat þeirra sem skipa J- listann að það séu hagsmunir sveitarfélagsins að óvissu ljúki sem fyrst og að bæjarstjórn með starfhæfan meirihluta taki til starfa svo fljótt sem verða má og vinni að þeim brýnu verkefnum sem fyrir liggja. J – listinn hefur nú hafið formlegar meirihlutaviðræður við A – listann, Byggðalistann og við það miðað að Svanfríður Jónasdóttir, oddviti J lista, verði áfram bæjarstjóri í Dalvíkurbyggð og Kristján E Hjartarson oddviti A lista verði formaður bæjarráðs."
Þá kemur það fram í yfirlýsingu J-listans að ýmsum þar á bæ finnst úrskurður kjörnefndar sýslumanns orka tvímælis og undrast að lögin skuli vera svo óljós að kjörstjórn Dalvíkurbyggðar og kjörnefnd sýslumanns komist að algerlega öndverðri niðurstöðu. "J – listinn skorar því á Alþingi að taka lög nr. 5/1998 um kosningar til sveitarstjórna til endurskoðunar með það að markmiði að skýra ákvæði laganna um þau álitaefni er varða gild og ógild atkvæði og einnig þá ferla sem taka eiga við ef úrslit kosninga eru kærð og úrskurðað er um niðurstöðu,-" segir ennfremur í yfirlýsingunni. 

Nýjast