Íbúum í Lunda – og Gerðahverfi líst ágætlega á aukna flokkun

Íbúar í Lunda- og Gerðahverfi á Akureyri munu í næsta mánuði fá heim að húsum sínum sorptunnu sem í að fara óendurvinnanlegur úrgangur og í henni er að auki ílát fyrir lífrænan úrgang.  Smám saman munu svo fleiri hverfi í bænum bætast við og fá slíka tunnu.  

„Ég heyrði ekki betur en að íbúum líkaði þetta fyrirkomulag vel," segir Ingvar Þóroddsson fráfarandi formaður hverfisnefndar Lunda- og Gerðahverfis, en nýjungar í sorphirðu voru kynntar eftir aðalfund nefndarinnar á dögunum. Gert er ráð fyrir að svonefnd grenndarstöð verði sett upp á svipuðum slóðum og verslun Bónus í Naustahverfi er og þangað eða á endurvinnslusvæðið við Réttarhvamm er íbúum beint með endurvinnanlegan úrgang, annan er lífrænan.  „Það var gott hljóð í fundarmönnum og menn eru tilbúnir að fara út í að flokka sitt sorp meira en verið hefur og minnka þannig það magn sem fer til urðunar." Verið er að dreifa tunnum og kynningarbæklingum í öll hús í hverfinu um þessar mundir.

Samkvæmt óformlegri könnun á vikudagur.is eru mun fleiri bæjarbúar ósáttir en sáttir við þá leið sem fara á sorpmálum á Akureyri, eða 66% þeirra rúmlega 500 sem tóku þátt. 26% þeirra sem tóku þátt eru fylgjandi en 8% höfðu ekki skoðun á málinu. Spurt var: Ertu sátt/sáttur við þá leið sem fara á í sorpmálum á Akureyri?

Nýjast