Í Eyjafjarðarsveit voru íbúar þann 1. desember sl. 1.040 og fjölgaði um 31 frá árinu 2007. Í Arnarneshreppi fjölgaði íbúum um 7 en þeir voru 178 þann 1. desember sl. Í Svalbarðsstrandarhreppi voru íbúar 396 þann 1. desember og hafði fjölgað um 11 frá árinu á undan.
Í Fjallabyggð, Dalvíkurbyggð, Grímsey, Hörgárbyggð og Grýtubakkahreppi fækkaði íbúum á milli. Í Fjallabyggð voru íbúar 2.129 þann 1. desember sl. og hafði fækkað um 59 og í Dalvíkurbyggð voru íbúar 1.942 og fækkaði um 9 frá árinu 2007. Í Grímsey fór íbúatalan undir 100 en þann 1. desember voru íbúar eyjarinnar 92 og hafði fækkað um 11 frá árinu á undan. Í Hörgárbyggð fækkaði um einn íbúa á milli ára en þann 1. desember sl. voru íbúar sveitarfélagsins 415. Í Grýtubakkahreppi fækkaði um 19 íbúa á milli ára en þar eru nú 338 íbúar.
Aðaldælahreppur sameinaðist Þingeyjarsveit á árinu og þar eru nú 945 íbúar og fjölgaði um 264. Af þeirri tölu voru íbúar í Aðaldælahreppi 261 í fyrra.
Akureyringum hefur verið að fjölga jafnt og þétt á síðustu árum. Íbúum í Ólafsfirði og á Siglufirði hafði verið að fækka og fækkunin heldur áfram eftir að sveitarfélögin tvö sameinuðust undir Fjallabyggð. Í Dalvíkurbyggð hefur orðið fækkun í ár og í fyrra, í Grímsey hefur íbúum fjölgað og fækkað á síðustu árum og það sama á við í Arnarneshreppi. Í Eyjafjarðarsveit hefur íbúum fjölgað síðustu 5 ár og þar eru íbúar yfir 1000 annað árið í röð. Í Hörgárbyggð hefur íbúum fjölgað síðustu ár en sem fyrr segir fækkaði nú um einn íbúa á milli ára. Þá hefur frekar fjölgað í Svalbarðsstrandarhreppi á síðustu árum en þó hefur einnig orðið fækkun á milli ára. Síðustu ár hefur íbúum í Grýtubakkahreppi verið að fækka á milli ára.