„Fyrsta atriðið er það að það eru allir í kjöri á landsfundi en ég geri ekki ráð fyrir því að ég
gefi kost á mér. Það að flokkurinn stilli saman krafta sína er miklu mikilvægara en einhverjar persónur,” segir Kristján Þór
Júlíusson þingmaður Sjálfstæðisflokksins, aðspurður um hvort hann hyggist gefa kost á sér sem formaður á landsfundi flokksins
sem fram fer í Laugardagshöllinni í Reykjavík um helgina í 39. sinn.
Vangaveltur hafa verið um hvort núverandi formaður flokksins, Bjarni Benediktsson, fái mótframboð og hefur nafn Kristjáns einna helst verið nefnt
í því samhengi.. Eins og ávallt á landsfundum flokksins býst Kristján við tíðindum af fundinum. „Þetta hefur alltaf
verið samkoma sem er uppspretta einhverja tíðinda og það kæmi mér ekkert á óvart að það yrði sitthvað sem kæmi fram
á fundinum sem myndi tíðindum sæta,” segir Kristján.
„Það sem er mest áríðandi fyrir Sjálfstæðisflokkinn er að stilli saman strengi sína og krafta.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur frá stofnun sinni verið ein öflugasta fjöldahreyfing landsins. Það afl sem býr innra með flokknum þarf
að virkja enn betur til að hægt sé að brjótast út úr þeirri stöðnun sem núverandi ríkisstjórn er að kalla
yfir íslenskt samfélag,” segir Kristján Þór.