Heimilt er nú að ferðast með gæludýr í farþegasal Hríseyjarferjunnar Sævars. Það var leyft nú nýverið, en áður höfðu t.d. að mynda hundar sem sigldu með ferjunni á milli lands og eyjar verið í óhitaðri kompu á leiðinni. Hundar og kettir geta hér eftir verið með eigendum sínum í farþegasal og hið sama á við um önnur gæludýr eins og fugla, nagdýr ýmiskonar, kanínur og froskar svo dæmi séu tekin. Slík dýr þurfa að vera í búri.
„Ég fagna þessu framtaki Vegagerðarinnar, þetta er algjörlega í takt við þær breytingar sem eiga sér stað í samfélaginu á Íslandi,“ segir Claudia Werdecker íbúi í Hrísey sem á hundinn Mola.
Hún sendi póst til Vegagerðarinnar í byrjun júní þegar sumarumferðin var hægt og rólega að hefjast og fleiri farþegar um borð í ferjunni sem og líka gæludýr, m.a. hundar. Hægt var að hafa hund í lítilli óupphitaðri geymslu í ferjunni eða standa úti á dekki. Kompan rúmar tvo einstaklinga og hund og segir Claudia að hún hafi oft verið upptekin, enda fleiri farþegar á ferð með hund en áður og eigi það bæði við um íbúa í Hrísey og gesti.
Claudia er með ME-sjúkdóminn og hefur hann versnað mikið undanfarin ár. „Á slæmum degi getur það að standa úti á dekki með hundinn gert út af við mig svo ég verð rúmliggjandi daginn eftir,“ segir hún. Svar barst frá forstöðumanni almenningssamgangna hjá Vegagerðinni þess efnis að Vegagerðin væri farin að íhuga að leyfa hunda og önnur gæludýr í farþegasal ferjunnar. „Vegagerðin var farin að skoða þetta áður en ég sendi bréfið og ég er mjög glöð með þróun mála.“
Claudia segir það fagnaðarefni og í takt við tíðaranda í samfélaginu. Sem dæmi leyfi sumir veitingastaðir og kaffihús hunda og útlit sé fyrir að hunda- og kattahald verði leyft í fjölbýlishúsum. Eins megi taka hunda með í strætó í Reykjavík sé ákveðnum reglum fylgt. „Ferjan er strætó okkar Hríseyinga og tenging við meginlandið,“ segir hún og fagnar einnig þeirri reglu að farþegar sem ferðast með dýr þurfi að hafa náð 18 ára aldri sem og að hundar megi ekki vera í útdraganlegum taum inni í farþegasal.
Claudia átti leið með Mola til dýralæknis nýverið og var með hann í farþegasalnum í fyrsta sinn. „Mér sýndist hann mjög velkominn þar og vakti meira að segja athygli því nokkrir farþegar vildu klappa honum. Hundurinn lá rólegur á gólfinu og enginn kippti sér upp við veru hans þar.“
Þá vill Claudia minna þá sem ferðast með dýr í farþegasal ferjunnar að virða þær reglur sem settar hafa verið varðandi flutning gæludýra með ferjunni og að ganga vel um. „Þetta er mikil framför frá því sem áður var að sitja í þessari kompu, það var ekki notalegt um miðjan vetur. Það var heldur ekki alltaf gaman að standa á dekki í kuldatíð. Þetta er því gríðarleg framför fyrir bæði okkur íbúana og gesti og þetta viljum við alls ekki missa,“ segir hún.