Hugleiðingar um þjálfun tunglfara á Íslandi

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, prófessor við hug- og félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri flytur erindi í fyrirlestraröð AkureyrarAkademíunnar sem hann nefnir: "Ísland er ekki líkt tunglinu" fimmtudaginn 25. september nk. kl. 17.00.  Hugleiðingar um þjálfun tunglfara á Íslandi.  

Fyrirlesturinn fer fram í AkureyrarAkademíunni að Þórunnarstræti 99 og eru allir velkomnir. Í fyrirlestrinum verður sagt stuttlega frá tveimur ferðalögum bandarískra geimfara og geimfaraefna, sumra þeirra síðar tunglfara, um hálendi Íslands í júlí 1965 og 1967, einkum ferðalögum upp í Dyngjufjöll og Öskju en einnig í Jökulheima. Sagt verður frá aðferðum við þjálfun væntanlegra tunglfara, áhuga íslenskra dagblaða á þessum atburðum og upplifun þeirra Íslendinga sem með þeim fóru. Auk samtíma frásagna íslenskra dagblaða og viðtala við nokkra af þeim Íslendingum sem voru með í ferðalögunum er byggt á erlendum heimildum og viðtali við einn af tólf tunglförum og er aðalheiti fyrirlestursins úr því viðtali.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson hefur bakkalár- og kandídatspróf frá Háskóla Íslands og doktorspróf í menntunarfræðum frá Wisconsinháskóla í Madison. Ingólfur starfaði sem landvörður í nokkur sumur á síðari hluta 9. áratugar síðustu aldar, frá árinu 2000 hefur hann verið formaður SUNN, Samtaka um náttúruvernd á Norðurlandi og situr nú í svæðisráði norðursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs.

Nýjast