Fyrsta sýningin í röðinni var í Listasafni ASÍ með undirtitlinum Innantóm slagorð og fékk hún afar góðar viðtökur. Nú er komið að Verksmiðjunni á Djúpavík. "... og tilbiður guð sinn sem deyr" er undirtitill sýningarinnar en þar verða rýmisbundnar innsetningar í fyrirrúmi. Sýningin opnar laugardaginn 17. júlí nk. kl. 14 og allir eru velkomnir. Sýningin stendur til 28. ágúst 2010. Þriðja sýningin opnar svo 3. september nk. í 111 - a space for contemporary art í Berlín. Undirtitill hennar er Byltingin er rétt að byrja og á þeim nótum endar síðasti hluti raðarinnar.
Verk Hlyns og Jónu eru allt í senn einföld, fjölbreytt og hugmyndaauðug. Þau vinna með marga ólíka miðla - Hlynur hefur fengist við ljósmyndir, vídeó, texta, gjörninga og innsetningar, Jóna hefur unnið með ljósmyndir, vídeó, texta, gjörninga og innsetningar. Verkin draga dám af því hvaða miðill verður fyrir valinu í hvert sinn en þátttaka áhorfandans er oft mikilvæg.
Í verkum beggja er að finna margbrotna en einfalda tjáningu. Verkin virðast á einhvern hátt hrein og bein og eiga greiða leið inn að hjarta- og
heilarótum. Sum verkanna eru lævís, önnur kröftug, og mörg bera slagyrðingalegan brag á sér. Einfaldleikinn talar beint til manns og virðist
fela í sér einhverja nánd, kannski falska (hver veit?)
Hlynur Hallsson (f. 1968) er menntaður við Myndlistarskólann á Akureyri, Myndlista - og handíðaskóla Íslands sem og við listaháskóla
í Hannover, Hamborg og Düsseldorf í Þýskalandi. Hann hefur verið gestakennari við Myndlistarskólann á Akureyri. Hann hefur hlotið ýmsa
styrki og viðurkenningar fyrir verk sín.
Jóna Hlíf Halldórsdóttir (f. 1978) er menntuð við Myndlistarskólann á Akureyri, var við nám í Finnlandi og lauk MFA-gráðu frá Glasgow School of Art í Skotlandi. Hún hefur verið safnstjóri hjá VeggVerk og Gallerí Ráðhús og hefur líkt og Hlynur hlotið ýmsar viðurkenningar og styrki fyrir verk sín.
Sjá nánar á http://vikudagur.is/www.hallsson.de og http://vikudagur.is/www.jonahlif.com
Á þessu ári er haldið upp á 75 ára afmæli Verksmiðjunnar og Hótel Djúpavík á 25 ára afmæli. Listrænir viðburðir í Síldarverksmiðjunni á Djúpavík hafa farið fram frá árinu 1990. Leikverk hafa verið sett upp, haldnir tónleikar og listsýningar, auk þess sem haldin hafa verið árleg stórmót í skák í samvinnu við Hrókinn. Fastasýning í vélasal verksmiðjunnar er Sögusýning Djúpavíkur sem segir sögu staðarins í máli og myndum. Þessar vikur stendur yfir sýning sem heitir Pictures and their sounds eftir Claus Sterneck og ennfremur er í bígerð vinna við Innsetningu eftir tvo unga listamenn frá Bandaríkjunum sem mun verða gestum til sýnis síðustu vikur sumarsins 2010.
Sjá nánar á http://vikudagur.is/www.djupavik.is