Hluthafar í Orkey fá hlutafé sitt greitt út

Hlutafé í Orkey ehf. verður fært niður í 500 þúsund krónur, en það var 45 milljónir króna að nafnverði. Þetta var samþykkt á hluthafafundi fyrir skemmstu. „Félagið er ekki að hætta starfsemi, en það má segja að það leggist tímabundið í dvala," segir Ágúst Torfi Hauksson stjórnarformaður í Orkey. Félagið var stofnað í febrúar á liðnu ári en markmið þess var að skoða leiðir og hagkvæmni þess að framleiða jurtaolíu úr kanadísku kanólafræi, mögulega í Krossanesverksmiðjunni á Akureyri. Stofnaðilar fyrirtækisins voru Akureyrarhöfn, LÍÚ, Samherji, Brim, Ísfélag Vestmannaeyja, HB Grandi, Arngrímur Jóhannsson og Norðurorka. Upphaf verkefnisins má rekja til þess að kanadískir aðilar komu til Akureyrar haustið 2006 og könnuðu möguleika á að Akureyrarhöfn yrði umskipunarhöfn fyrir útflutningsvörur þeirra, m.a. kanólafræ sem flutt er frá Kanada til meginlands Evrópu og notað þar til framleiðslu jurtaolíu. Í framhaldi af þessari heimsókn kviknaði sú hugmynd að framleiða olíuna úr kanólafræinu hér á landi.

Ágúst Torfi segir að aðstæður hafi breyst frá því að VGK-hönnun, sem sá um hagkvæmniútreikninga og forathugun vegna málsins, hóf að vinna að málinu á liðnu ári. „Það gekk ekki upp að svo stöddu að Akureyri yrði umskipunarhöfn fyrir útflutningsvörur Kanadamannanna og það hafði áhrif á allar áætlanir," segir hann. Eins hafi komið í ljós að jurtaolían sem koma átti sem íblöndunarefni í svartolíu á fiskiskipaflotann hafi ekki reynst nægilega hagkvæm, verðið var of hátt til að keppa við svartolíuna. Þá var að sögn Ágústs kannað hvort möguleiki væri á framleiðslu á svonefndum lífdísel og svo reynst vera ef olíugjald væri ekki fyrir hendi. Reynt hafi verið að kynna stjórnvöldum málið, en uppskeran ekki önnur en loðin svör. „Það er því ekkert í hendi núna, eins og staðan er yrði reksturinn alltof áhættusamur og ekki arðbær."

Ágúst segir að því hafi verið ákveðið að greiða hluthöfum út hlutafé sitt og bíða átekta. „Ef forsendur breytast er félagið enn til," segir hann og nefnir að einnig hafi í millitíðinni komið til sögunnar ítalska fyrirtækið Becromal sem nú er að reisa aflþynnuverksmiðju í Krossanesi. „Við höfðum forkaupsrétt þar en gáfum hann frá okkur enda vildum við ekki trufla þá starfsemi sem þeir hyggjast setja upp heldur fögnum við henni. Okkar félag er stofnað um góða hluti, ekki gróðahyggju," segir Ágúst.

Nýjast