Á fundi stjórnar Greiðrar leiðar og Kristjáns L. Möllers samgönguráðherra á dögunum, kynnti ráðherra nýlega samþykkt lög sem heimila Vegagerðinni að taka þátt í stofnun hlutafélags um Vaðlaheiðargöng, auk þess sem ráðherra greindi frá þeirri vinnu sem í kjölfarið hefur farið af stað á vegum ráðuneytisins til skoðunar á fjármögnun og fleiri þáttum. Pétur Þór Jónasson formaður stjórnar Greiðrar leiðar segir að til að þessar hugmyndir gangi eftir, þurfi aðkomu lífeyrissjóðanna við fjármögnum framkvæmdanna.
"Þar fyrir utan er undirbúningsvinna í fullum gangi hjá Vegagerðinni, við tæknilega hluti og viðræður við landeigendur. Einnig á að bæta við tveimur rannsóknarholum, sú framkvæmd er í útboði og er gert ráð fyrir framkvæmdatíma til 15. nóvember. Þetta er gert til að hafa enn öruggari gögn undir höndum."
Pétur Þór segir að það sé nauðsynlegt að stofna þetta hlutafélag um Vaðlaheiðargöng með 400 milljóna króna hlutafé, til þess að fá meðbyr með verkefninu. Hér sé þó ekki um að ræða lögbundið verkefni sveitarfélaga en engu að síður mjög mikilvægt verkefni fyrir svæðið.
"Það er ekki hægt annað en að vera bjartsýnn á að þessar hugmyndir gangi eftir og að hægt verði að hefja framkvæmdir við Vaðlaheiðargöng. Það hefur þó ýmislegt breyst, við erum nú að tala um allt annað vaxtarstig og lánafyrirgreiðslu en gert er ráð fyrir að endurgreiða þetta lánsfé alfarið með veggjöldum."