Hlökkum til að takast á við verkefnin framundan

„Við erum mjög ánægð með þessi úrslit og okkur lýst vel á komandi kjörtímabil," segir Birna Ágústsdóttir sem skipar 2. sæti á H-lista sem bauð fram í Eyjafjarðarsveit. Listinn fékk fjóra menn kjörna í sveitarstjórn, F-listi þrjá menn, en tveir listar buðu fram. Á kjörskrá í Eyjafjarðarsveit voru 713 manns, 541 kaus og var þátttaka því 75,8%.  

Atkvæði féllu þannig að  H-listinn fékk 277 atkvæði eða 51,2% greiddra atkvæða  og  4 menn kjörna, F-listinn 240 atkvæði eða 44.4% greiddra atkvæða  og 3 menn kjörna. Auðir seðlar og ógildir voru 24. Í sveitarstjórn voru kjörin, þau Arnar Árnason, Hranastöðum, Birna Ágústsdóttir, Rifkelsstöðum, Einar Gíslason, Brúnum og Kristín Kolbeinsdóttir, Vökulandi, af H-lista og af F-lista þau Sigurjón Karel Rafnsson, Skógartröð 5, Bryndís Þórhallsdóttir, Hrafnagilsskóla og Jón Stefánsson, Berglandi.

Birna segir að íbúar sveitarfélagsins séu samhentir og á ekki von á öðru en góðu og farsælu samstarfi við fulltrúa F-listans á komandi ári.  Stefnan sé að veita sem besta þjónustu íbúum til hagsbóta og menn séu tilbúnir að vinna vel til að ná  því markmiði.  „Við hlökkum til að takast á við þau verkefni sem framundan eru," segir Birna. Hún segir að rætt hafi verið við Jónas Vigfússon sveitarstjóra um að gegna starfinu áfram næsta kjörtímabil og segir að hann verði ráðinn náist um það samningar en ella verði staðan auglýst.

„Þó að frambjóðendur F-listans í Eyjafjarðarsveit hefðu vissulega kosið önnur úrslit í nýafstöðnum kosningum getum við að mörgu leyti vel við unað.  F-listinn bætti hlutfallslega við sig mun fleiri atkvæðum en sitjandi meirihluti á milli kjörtímabila.  Það verður að teljast nokkuð gott í ljósi þess að fjárhagsstaða sveitarfélagsins er sterk miðað við önnur sveitarfélög á landinu og tiltölulega lítið hefur verið um átakamál á síðustu misserum. Hlutverk hins ábyrga minnihluta verður því hlutskipti F-listans að þessu sinni á komandi kjörtímabili," segir Karel Rafnsson oddviti F-listans.

Nýjast