Hljómdiskur með söng Jóhanns Daníelssonar gefinn út

Næstkomandi laugardag, 20. nóvember, kemur út hljómdiskurinn „Enn syngur vornóttin"  sem er með söng Jóhanns Daníelssonar. Á þennan disk hafa verið valdar ýmsar upptökur sem til eru af söng Jóhanns og eru þær frá um 40 ára tímabili, þær elstu eru frá því upp úr 1960 en þær síðustu eru frá árinu 2002.  

Elstu upptökurnar eru frá tónleikum þar sem Jóhann söng með karlakórunum á Akureyri, bæði Karlakórnum Geysi og Karlakór Akureyrar. Þá eru tvö lög af plötu Karlakórs Dalvíkur, Svarfaðardalur, sem gefin var út árið 1975. Mörg laganna eru af plötu þeirra Eiríks Stefánssonar og Jóhanns Daníelssonar sem gefin var út árið 1976 og einnig af plötunni Í kvöldró sem gefin var út 1981. Eitt laganna,  þar sem Jóhann syngur einsöng með barnakór, kom út á plötunni Unga Kirkjan árið 1968.

Í tilefni af útgáfu disksins verða tónleikar í Menningarhúsinu Bergi á laugardaginn 20. nóvember og hefjast þeir klukkan 16,00. Á tónleikunum, sem einfaldlega heita „Lögin hans Jóa Dan",  munu Pétur Björnsson tenór og Jón Svavar Jósefsson barítón flytja ásamt Karlakór Dalvíku, undir stjórn Guðmundar Óla Gunnarssonar, mörg af lögunum sem á disknum eru. Undirleikari á tónleikunum verður Daníel Þorsteinsson. Það er Tónlistafélag Dalvíkur sem stendur að útgáfu disknum og tónleikunum á laugardaginn.

Nýjast