Maðurinn ók bifreið allt of hratt og óvarlega miðað við aðstæður austur Borgarbraut á Akureyri, fór ógætilega fram út tveimur bifreiðum í beygju skammt frá gagnamótum við Dalsbraut og var á alltof miklum hraða þó svo að yfirborðsmerkingar á veginum bönnuðu framúrakstur og að bílar kæmu á móti honum. Afleiðing þessa glæfraaksturs var sú að ökumaður missti stjórn á bíl sínum, sem fyrst lenti á tveimur ljósastaurum, fór síðan nokkrar veltur í götukantinum og gangstéttinni við hlið götunnar og endaði á grjótgarði þar skammt frá.
Tveir farþegar sem voru með honum í bílnum slösuðust, hlutu m.a. fingurbrot, tognunaráverka á hálsi og brjósthrygg, höfuðhögg, heilahristing og mjaðmagrindarbrot.
Maðurinn játaði sök fyirr dómi en hann hefur ekki áður sætt refsingum. Þótti refsing hans nú hæfilega ákveðin fangelsi í einn mánuð, sem skilorðsbundin var til tveggja ára. Þá var hann dæmdur til að greiða 120 þúsund króna sekt í ríkissjóð og rúmlega 30 þúsund krónur í sakarkostnað, en alls nam upphæð sakarkostnaður um 115 þúsund krónum. Loks var hann vegna hins vítaverða aksturs sviptur ökuleyfi í eitt ár.