„Bílarnir okkar eru alltaf á ferðinni og okkur er umhugað um öryggi samferðarmanna okkar," segir Ingi Þór Hermannsson, forstöðumaður Landflutninga um þessa ákvörðun félagsins. Til að byrja með verður hjartastuðtækjum komið fyrir í bílum sem aka milli Reykjavíkur og Norðurlands, Austurlands og Vestfjarða en samkvæmt tölfræðinni er útkallstími vegna hjartaáfalla á þjóðvegum landsins yfirleitt lengri en 5 mínútur. Það getur því skipt sköpum að hafa svona tæki í vöruflutningabílum Landflutninga-Samskipa en tækin eru sömu tegunadar og hjartastuðtækin sem eru í öllum sjúkrabílum landsins, þyrlu Landhelgisgæslunnar og víðar. Tækin eru alsjálfvirk, krefjast ekki sérfræðiþekkingar og eru mjög einföld í notkun. Bílstjórar félagsins verða þjálfaðir í notkun þeirra á næstunni og munu þá geta brugðist hratt við, ef á reynir, og veitt aðstoð.
„Það eru GPS tæki í flutningabílunum og alltaf hægt að staðsetja þá nákvæmlega ef þörf er á aðstoð. Það má því segja að kjörorð okkar- á ferðinni fyrir þig - eigi vel við en með þessu viljum við leggja okkar af mörkum við björgun mannslífa," segir forstöðumaður Landflutninga. Slökkvilið höfuðboragarsvæðisins fær um 300 útköll á hverju ári vegna hjartastopps og samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Hjartaverndar deyja árlega um 700 manns á Íslandi vegna sjúkdóma í blóðrásarkerfi, segir í fréttatilkynningu.