Það er skylda samfélagsins, ríkis, sveitarfélaga og einstaklinga að koma þeim til aðstoðar strax sem illa fara út úr þessum hremmingum. Landsbyggðin lifi bendir á að hin kalda markaðshyggja sem einkennt hefur stefnu íslensks þjóðfélags um langt árabil, hefur komið illa við láglaunafólk, alls staðar, sérstaklega hefur hún komið illa við landsbyggðina og þau markmið að efla byggð um allt land. Stefnan hefur leitt til þess að auka gróða fárra einstaklinga sem staðið hafa í alþjóðlegum peningaviðskiptum á kostnað framleiðslu í undirstöðuatvinnuvegum þjóðarinnar. Þessi stefna hefur nú leitt þjóðina í efnahagslegt skipbrot og skuldafen.
Nú þurfum við að endurmeta stefnuna. Landsbyggðin lifi hvetur almenning um allt land til að taka höndum saman til að styðja þá sem eiga í mestum erfiðleikum. Um leið hvetjum við almenning til að hefja stefnumótandi umræðu um hvernig samfélagi við viljum búa í. Kjörorðið gæti verið: Ávöxtum sjálf okkar pund, mótum stefnuna sjálf út frá hagsmunum almennings, leggjum aukna áherslu á hið smáa og nærtæka í okkar umhverfi. Landsbyggðin lifi er reiðubúin til að taka þátt í slíkum umræðufundum, hvar sem er, með skipulagningu og beinni þátttöku, segir ennfremur í yfirlýsingu frá stjórn samtakanna.