Athygli vekur hversu jafnar og stórar síðasta helgin í júní og tvær næstu helgar þar á eftir eru. Eru þessar helgar mjög svipaðar og verslunarmannahelgin að stærð. Sé horft til áranna 2008 og 2009 sést að verslunarmannahelgin varð óvenju stór þetta árið, borið saman við aðrar helgar sumarsins. Fróðlegt verður að sjá hvernig næsta ár kemur út og svo hvort sumarumferðin sé í auknum mæli að færast á einn og sama mánuðinn þ.e.a.s. júlímánuð. Þetta mun einnig sjást betur þegar umferðin í ágústmánuði liggur fyrir á 16 völdum talningastöðum, nú í vikulokin. Miðað við sömu helgi árið 2009 var umferðin nýliðna helgi 6,7% minni nú í ár. 7,8% samdráttur varð austur fyrir fjall en 5% í norður.
Helgarumferðin árið 2010 hefur ekki náð sömu hæðum og sumarið 2009. Reyndar er stærsta helgin 2010 (16. - 18. júlí) minni en stærsta helgin árið 2008, sem var sama helgin. Meðalhelgarumferð fyrir sumarið 2010 varð 2,3% undir árinu 2009 en 0,9% yfir árinu 2008, segir ennfremur á vef Vegagerðarinnar.