Helga hjólaði frá Akureyri til Reykjavíkur

„Þetta var alveg yndislegt og ég naut þess út í ystu æsar," segir Helga Halldórsdóttir sem á dögunum  tók sig til og hjólaði frá Akureyri til Reykjavíkur.  Helga er 65 ára gömul og var komin yfir sextugt þegar hún keypti sitt fyrsta hjól, notaði til þess peninga sem hún fékk í afmælisgjöf.  Áður hefur Helga m.a. hjólað á Sauðárkrók, að Laugum og skroppið í kaffi á Dalvík á reiðhjóli sínu eða tekið Eyjafjarðarhringinn og fleira.

„Mig hefur lengi langað og hjóla til Reykjavíkur og lét verða af því núna," segir hún, en með í för var eiginmaður hennar sem ferðaðist á bíl og dró hjólhýsi sem þau gistu í.  Helga hjólaði í fjórum áföngum suður, sá fyrsti var í Varmahlíð, þá að Laugabakka, síðan örlítið inn í Hvalfjörðinn og loks til höfuðborgarinnar.  Að jafnaði hjólaði hún um eða yfir 100 kílómetra á dag, en lengsta dagleiðin var 166 kílómetrar.

Veðráttan var af ýmsu tagi, það var sól og blíða, hvassviðri og stundum slagveðursrigning.  Víða var mikil umferð að sögn Helgu, m.a. úr Borgarnesi og niður í Hvalfjörð.  Ökumenn segir hún langflesta tillitsama gagnvart reiðhjólafólki, en hafa þurfi varann á þegar hjólað er eftir umferðarþungum þjóðvegum.  Gæta þurfi að miklu sogi sem myndist þegar stórir flutningabílar aki framhjá og auðveldlega geti feykt fólki ofan í næsta skurð og þá séu sumir tjaldvagnar og fellihýsi mun breiðari en bifreiðar sem draga þá, „það munaði ekki alltaf miklu að þessi aftanívagnar strykjust í mann, en slapp til," segir Helga.

Slakaði á seinni partinn

 „Ég lagði alltaf snemma af stað á morgnana, um kl. 7 en þá er umferðin minni og hjólaði fram á daginn en slakaði svo á seinnipartinn, fór í sund og hafði það notalegt," segir hún og kveðst ekki hafa verið að flýta sér neitt.  „Ég bara naut þess að vera á ferðinni og hafa gaman af," segir hún.

„Ég gerði þetta bara fyrir sjálfa mig, ég var ekki að keppa við neinn," bætir hún við og bendir á að aldrei sé of seint að byrja að hjóla líkt og dæmið um hana sanni.  „Ef menn langar að gera eitthvað er um að gera að láta drauminn rætast, ég er svo heppin að vera frísk og í góðu formi þannig að þetta gekk allt saman upp," segir hún. Helga keypti betra hjól fyrir ferðina, 27 gíra sem reyndist að sögn mjög vel „ég var viðbúin því en það kom ekkert upp á, þetta var bara æðislegt."

Nýjast